Skip to main content

September á Austurlandi með þeim köldustu um árabil

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. okt 2024 09:50Uppfært 04. okt 2024 09:55

Eftir afar rysjótta sumartíð víðast hvar á Austurlandi voru margir að vona að haustbyrjunin yrði mild og góð á móti. Sú von gekk ekki eftir því bæði var hvassara og mun kaldara í fjórðungnum en verið hefur um árabil.

Þetta staðfesta tíðarfarstölur Veðurstofu Íslands fyrir nýliðinn septembermánuð og það annar mánuðurinn í röð sem hitastig austanlands er töluvert undir meðaltali síðustu rúmlega 30 ára.

Meðalhiti mánaðarins á Egilsstöðum reyndist aðeins vera 6,1 stig sem er 2,3 stigum lægra en meðalhiti sama mánaðar síðustu tíu árin. Að Teigarhorni var 2,0 stigum kaldara í september en síðasta áratuginn og á Dalatanga 1,6 stigum undir því sem verið hefur yfir sama tímabil.

Annað athyglisvert við septembermánuð er hve hár loftþrýstingur mældist um land allt en ekki hvað síst á Austurlandi þar sem meðal annars mældist allra hæsti loftþrýstingur sem mælst hefur á Dalatanga frá upphafi mælinga þar árið 1938. Þetta algjörlega á skjön við loftþrýstingstölur ágústmánaðar sem voru óvenjulega lágar og þann mánuð allan mældist hann allra lægstur á Vattarnesi.

Aldrei hefur mælst jafn hár loftþrýstingur á Dalatanga yst í Mjóafirði og reyndin varð í síðasta mánuði