Setja Austfirðir nýtt landshitamet fyrir febrúar?
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir allt landið vegna hlýinda sem valdið geta mikilli hláku. Líkur eru á að landshitametið fyrir febrúarmánuð falli á Austfjörðum í fyrramálið.„Í fyrramálið verður allhvass vindur á Austurlandi og Austfjörðum. Rétt yfir fjallahæð verður mjög hlýr loftmassi.
Í þessum vindi getur þessi hlýi loftmassi náð að blandast niður og mynda hnjúkaþey. Þá getur staðbundinn hiti orðið mjög hár, jafnvel 17-18 gráður. Ef allt gengur upp þá getur hitinn orðið hærri og þá er landshitametið fyrir febrúarmánuð verið í hættu,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Hitametið er frá 12. febrúar árið 2017 en þá fór hitinn upp í 19,1°C á Eyjabökkum. Furðulegt kann að virðast að svo hlýtt verði á hálendinu í febrúar en það skýrist af legu Eyjabakka vestan undir hinu 1852 metra háa Snæfelli.
„Þennan dag var mjög hlýr loftmassi yfir landinu en ekki jafn mikill vindur og á morgun þannig að hlýi massinn náði ekki að blandast niður í byggð. Það myndast hins vegar staðbundnir vindstrengir á hálendingu og Snæfellið þynnti vindinn og náði að blanda loftmassanum saman hlémegin við,“ segir Teitur.
Hann segir vert að fylgjast með hitatölum á stöðum eins og Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, Seyðisfirði og Norðfirði í fyrramálið.
Hiti fór yfir frostmark eystra í gær og samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er flughálka á vegum í Hróarstungu, Jökuldalsheiði og í Vopnafirði. Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna hlýindanna sem ganga yfir landið. Líkur eru á vatnavöxtum og auknar líkur á krapaflóðum.
Lítil eða engin rigning verður eystra, mögulega þó helst syðst í fjórðungnum. Teitur telur ekki líkur á stórvandræðum á svæðinu en vissara sé fyrir fólk að vera á varðbergi með að hreinsa frá niðurföllum og þess háttar.
Seinni partinn á morgun kólnar nokkuð ákveðið. Þótt hlýtt verði um tíma á föstudag mætir kalda loftið aftur á laugardag og virðist þá komið til að vera.