Sex verkefni á Eyrarrósarlistanum

Sex verkefni eru á Eyrarrósarlistanum, þar af þrjú sem eru formlega tilnefnd til verðlaunanna sjálfra, sem afhent verða á Seyðisfirði eftir rúma viku. Eyrarósin er veitt fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. 

Ekkert austfirskt verkefni er á listanum í ár en Austfirðingar hafa verið sigursælir í gegnum tíðina. Þannig hafa þrjú verkefni frá Seyðisfirði hlotið viðurkenninguna, síðast List í ljósi í fyrra, sem er ástæðan fyrir að verðlaunin verða afhent þar föstudaginn 14. febrúar.

Sex verkefni eru á hinum svokallaða Eyrarrósarlista, þar af eiga þrjú þeirra möguleika á að hljóta viðurkenninguna sjálfa.

Á listanum eru:

Júlíana - hátíð sögu og bóka í Stykkishólmi. Hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2013 að frumkvæði fjögurra kvenna sem vildu lífga upp á menningarlífið á veturna í bænum. Leiðarljós hátíðarinnar er að stuðla að umfjöllun um þýðingu sögunnar og sagnaarfsins í samtímanum.

Plan -B - listahátíð í Borgarnesi. Hátíðin er vettvangur fyrir listamenn til að þróa hugmyndir sínar og listsköpun í því formi sem þeir kjósa. Þeir miðlar sem listamenn hátíðarinnar vinna í eru því fjölbreyttir, allt frá málverki til gjörninga. Hún var fyrst haldin árið 2016.

Reykholtshátíð í Borgarfirði. Hátíðin hefur verið haldin síðustu helgina í júlí frá árinu 1996 og er því meðal rótgrónustu tónlistarhátíða landsins. Flytjendur hafa bæði verið úr fremstu röð íslensks tónlistarlífs auk erlendra gesta.

Verkefnin þrjú sem unnið geta verðlaunin eru:

Kakalaskáli í Skagafirði. Í Kakalaskála er sögu Sturlungaaldar miðlað í gegnum sögu- og listasýningu með hljóðleiðsögn. Sýningin var unnin síðasta vor af 14 listamönnum frá 10 þjóðlöndum. Þar er einnig útilistaverk, úr ríflega 1300 steinum, sem sviðsetur Hauganesbardaga.

Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Á þeim 8 árum sem starfseminni hefur verið haldið úti hafa um þúsund listamenn og skapandi einstaklingar komið fram í Alþýðuhúsinu og um 300 viðburðir verið settir upp fyrir gesti og gangandi að njóta.

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda, Patreksfirði. Hátíðin er sú eina hérlendis sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Á Patreksfirði koma saman bæði byrjendur, reynsluboltar og almennir áhorfendur í samtali sem skiptir miklu máli fyrir íslenska heimildamyndagerð.

Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar, mun afhenda verðlaunin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar