Sjá fyrir þörf á 13% meiri raforku á Austurlandi fram til 2050

Ný raforkuspá Landsnets gerir ráð fyrir að 13% meiri raforku þurfi inn á Austurland fyrir árið 2050. Ekki er spáð aukningu á raforku til stóriðju á tímabilinu en orka fyrir mögulega rafeldsneytisverksmiðju á Reyðarfirði er utan við þessar tölur.

Þetta kemur fram í raforkuspá Landsnets, sem uppfærð er árlega. Austurland nær í henni yfir svæðið frá Vopnafirði til Hornafjarðar.

Aukning á almennri eftirspurn eftir orku er reiknuð í takt við vænta íbúaþróun, að hún aukist úr 0,5 TWh í dag í 0,77 TWh árið 2050. Ekki er gert ráð fyrir aukningu meðal stórnotenda heldur að þeirra notkun haldist stöðug í 4,9 TWh. Þá eru 0,5 TWh ætlaðar til orkuskipta, utan millilandaflugs og skipa. Þetta þýðir að búist er við heildarnotkun á Austurlandi aukist úr 5,4 TWh í dag í 6,12 TWh árið 2050.

5 TWh þyrfti í rafeldsneytisverksmiðjur


Danska félagið CIP hefur undanfarin þrjú ár unnið að hugmyndum um byggingu rafeldsneytisverksmiðju á Reyðarfirði. Hún er ekki tekin fyrir í landshlutaspánni sem, samkvæmt upplýsingum frá Landsneti, er fyrst og fremst ætluð þannig að dreifiveitur geti áætlað sína uppbyggingu.

Rafeldsneytisframleiðsla á landinu er hins vegar það umfangsmikil að hún fær sérstakan kafla í skýrslunni enda telur Landsnet að fyrir henni þurfi sérstaklega að afla orku og byggja upp tengingar. Í skýrslunni kemur fram að fyrirtækið viti af áformum aðila um að reisa slíkar verksmiðjur á næstu 15 árum hérlendis. Þær myndu samanlagt nota allt að 5TWh árlega. Möguleg verksmiðja á Reyðarfirði er inni í þeirri tölu. Í skýrslunni segir að enn sé mjög margt óljóst í þessum efnum, meðal annars hvort framleiða eigi rafeldsneyti fyrir innanlandsmarkað, til útflutnings eða blanda því saman.

Til samanburðar má nefna að ef horft er til ætlana um orkuskipta í innanlandsflugi er talið að í þau þurfi 0,09 TWh á ári í lok spátímabilsins. Til að rafvæða bílaflotann allan þarf 2,5 TWh. Eigi að uppfylla þörf um orkuskipti á hafi með innlendu eldsneyti þarf 3,2 TWh á ári. Mest þarf í millilandaflug, 3,6 TWh.

Hugsa þarf fram í tímann þegar kemur að sólarorku


Í skýrslunni segir að áform um nýjar virkjanir eða stækkanir á þeim sem fyrir eru, hvort sem er með vatni, vindi eða jarðvarma, dugi einar og sér ekki fyrir orkuskiptunum. Þess vegna þurfi að skoða smærri virkjanakosti og nýja orkugjafa, til dæmis sólarorku og sjávarföll. Sérstaklega er vikið að sólarorkunni þar sem þróun hennar sé hröð erlendis, bæði með stórum orkuverum en líka minni, svo sem sólarsellum á þökum íbúðarhúsa, eins og verið er að setja upp í Neskaupstað.

Þær eru sagðar geta létt á fjárfestingum í dreifikerfum en krefjast um leið nýrrar hugsunar og lausna. Mikilvægt sé að taka tillit til þessara smáframleiðenda þegar komi að þróun innviða, tækni, fyrirkomulagi viðskipta og reglugerðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.