Skipin farin af stað í þriðju umferð loðnuleitar
Fimm veiðiskip auk rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar eru nú að koma sér fyrir til þriðju umferðar loðnuleitar. Gert er ráð fyrir að henni ljúki í vikunni ef veður helst skaplegt.Veiðiskipin Hákon EA, Heimaey VE, Börkur NK, Aðalsteinn Jónsson SU og Polar Amaroq GR héldu nær samtímis af stað úr sínum höfnum um klukkan fjögur í gær.
Börkur hefur þegar hafið grófa leit við landgrunnskantinn út af Langanesi, á þeim slóðum sem Árni Friðriksson hætti áður en gekk í brælu í lok síðustu viku. Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs, segir að á því svæði hafi mælst álíka mikil loðna og í síðasta leiðangri sem var farinn fyrstu viku febrúar.
Polar og Aðalsteinn Jónsson eru að koma sér fyrir úti fyrir Norðurlandi. Þangað stefnir líka Árni Friðriksson sem fór frá Akureyri í morgun. Heimaey er á leið að Hornbjargi og mun leita þaðan til suðurs á móts við Hákon. Skipin fara meðal annars yfir Dohrm banka, sem er nýtt svæði í leitinni, en þaðan hafa borist fréttir af loðnugöngum.
Leitin hefst af alvöru síðar í dag þegar veðrið lagast á miðunum. „Við ætlum að fara yfir svipað svæði og í febrúar, frá Langanesi allt vestur að Dohrm banka sem við skoðum nú í fyrsta sinn. Við viljum ná mælingu þar,“ segir Guðmundur.
Gert er ráð fyrir að leitinni ljúki í lok vikunnar, háð veðri, en líkur eru á brælu á fimmtudag.
Í febrúar mældust um 250 þúsund tonn af loðnu en finna þarf um 150 þúsund í viðbót áður en hægt verður að gefa út kvóta. „Öll skipin fara til mælinga og munu fara í þéttum línum. Við erum að vona að það hafi gengið meiri loðna inn á svæðið í það miklu magni að það skipti máli. Það eru alltaf fréttir af loðnu en innan þess svæðis sem við höfum horft á.“