Skipin farin af stað í þriðju umferð loðnuleitar

Fimm veiðiskip auk rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar eru nú að koma sér fyrir til þriðju umferðar loðnuleitar. Gert er ráð fyrir að henni ljúki í vikunni ef veður helst skaplegt.

Veiðiskipin Hákon EA, Heimaey VE, Börkur NK, Aðalsteinn Jónsson SU og Polar Amaroq GR héldu nær samtímis af stað úr sínum höfnum um klukkan fjögur í gær.

Börkur hefur þegar hafið grófa leit við landgrunnskantinn út af Langanesi, á þeim slóðum sem Árni Friðriksson hætti áður en gekk í brælu í lok síðustu viku. Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs, segir að á því svæði hafi mælst álíka mikil loðna og í síðasta leiðangri sem var farinn fyrstu viku febrúar.

Polar og Aðalsteinn Jónsson eru að koma sér fyrir úti fyrir Norðurlandi. Þangað stefnir líka Árni Friðriksson sem fór frá Akureyri í morgun. Heimaey er á leið að Hornbjargi og mun leita þaðan til suðurs á móts við Hákon. Skipin fara meðal annars yfir Dohrm banka, sem er nýtt svæði í leitinni, en þaðan hafa borist fréttir af loðnugöngum.

Leitin hefst af alvöru síðar í dag þegar veðrið lagast á miðunum. „Við ætlum að fara yfir svipað svæði og í febrúar, frá Langanesi allt vestur að Dohrm banka sem við skoðum nú í fyrsta sinn. Við viljum ná mælingu þar,“ segir Guðmundur.

Gert er ráð fyrir að leitinni ljúki í lok vikunnar, háð veðri, en líkur eru á brælu á fimmtudag.

Í febrúar mældust um 250 þúsund tonn af loðnu en finna þarf um 150 þúsund í viðbót áður en hægt verður að gefa út kvóta. „Öll skipin fara til mælinga og munu fara í þéttum línum. Við erum að vona að það hafi gengið meiri loðna inn á svæðið í það miklu magni að það skipti máli. Það eru alltaf fréttir af loðnu en innan þess svæðis sem við höfum horft á.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar