Slæm færð á Fjarðarheiði heldur aftur af ferðalöngum
Vont veður og vetrarfærð á Fjarðarheiði hefur sett strik í reikning ferðalanga úr tveimur skemmtiferðaskipum og ferjunni Norrænu á Seyðisfirði í morgun.
Um 1000 farþegar eru um borð í skemmtiferðaskipinu Viking Sky sem kom til Seyðisfjarðar um hádegi í gær. Skipið kom fyrr til hafnar en ætlað var vegna veðurs.
Margir þeirra áttu bókað í skoðunarferðir um Austurland í dag. Rúturnar sem áttu að sækja þá fóru hins vegar aldrei yfir Fjarðarheiði en á henni var þæfingsfærð og hvassviðri á sjöunda tímanum í morgun.
Skoðunarferðunum var því breytt í gönguferðir í staðinn.
Um 750 farþegar og á annað hundrað farartæki komu með Norrænu í morgun. Ferðalangar, bæði á einkabílum og rútum, lögðu á heiðina upp úr klukkan tíu og var ferjuhúsið þá að tæmast.
Einhverjum mun þó ekki hafa litist á blikuna er á heiðina var komið og snéru aftur til Seyðisfjarðar, þar á meðal ein rúta.
Á Seyðisfirði er einnig skemmtiferðaskipið Ocean Diamond með um 150 farþega.
„Fjarðarheiðin setur stórt strik í reikninginn hjá þessum ferðalöngum. Það er löngu orðið tímabært að grafa holu í gegnum hana,“ sagði Rúnar Gunnarsson, hafnarvörður, þegar Austurfrétt hafði tal af honum í morgun.
Samkvæmt kortum Vegagerðarinnar er hálka á heiðinni og skafrenningur. Af vefmyndavélum að dæma er skyggni þar takmarkað.