Smávirkjun komin í gagnið í Loðmundarfirði

Heimatilbúin túrbína frá Sauðárkróki, notaðar ódýrar lagnir úr Öxarfirði og stór hópur sjálfboðaliða sem gáfu tíma og vinnu með hléum um hartnær þriggja ára skeið. Fyrir vikið verða mannvirki Ferðafélags Fljótsdalshéraðs að Klyppstöðum í Loðmundarfirði öll upphituð héðan í frá.

Unnið hefur verið að því allt frá árinu 2021 af hálfu ferðafélagsins að setja upp nógu öfluga smávirkjun í Loðmundarfirði til að hita hús félagsins að Klyppstaðahjáleigu en þar er meðal annars svefnpokapláss fyrir 38 manns og oft þaulsetið. Það var svo um liðna helgi sem túrbínan var gangsett en sú skilar allt að fjórum kílówöttum af orku.

Að setja upp smávirkjun í eyðifirði er ekkert áhlaupaverk enda kostnaðarsamt ekkert síður en mannafls- og tímafrekt eins og Þórhallur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri ferðafélagsins, lýsir vel í færslu á samfélagsmiðlum vegna þessa.

Það sem skipti sköpum að verkefnið hófst á sínum tíma var rausnarleg gjöf Braga Sigurðssonar frá Sólbakka á Borgarfirði eystra en Bragi setti sjálfur saman litla túrbínu í skúrnum sínum á Sauðárkróki og gaf ferðafélaginu hana til eignar. Það var neistinn sem til þurfti að sögn Þórhalls.

Vatnsvélin er dýrasti hluti svona framkvæmda þannig að okkur var ekki til setunnar boðið að klára dæmið.Rörin eru notuð fóðurrör úr laxeldi í Öxarfirði og fengust þau á góðu verði. Lagnaleiðin er um 1,2 kílómetrar og fallhæðin 100 metrar. Eins og oft áður kom fjöldi manns að þessum framkvæmdum bæði með vinnu og efni. Þakka öllum sem lögðu okkur lið til að virkjunin í Loðmundarfirði yrði að veruleika.

Þórhallur sjálfur að vinnu við nýju virkjunina en hún hóf að framleiða orku um liðna helgi. Mynd Þórhallur Þorsteinsson/Ferðafélag Fljótsdalshéraðs

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar