Snjóflóð rann langleiðina niður að veginum milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar
Tiltölulega stórt snjóflóð féll örskammt frá veginum á milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar fyrir stundu Eskifjarðarmegin. Vegurinn er ekki ófær en lögregla hefur lokað honum vegna frekari snjóflóðahættu. Engar fregnir eru um tjón eða slys.
Upplýsingar eru af skornum skammti að svo stöddu en flóðið féll úr hlíðum Hólmatinds fyrir um hálfri klukkustund síðan og náði langleiðina niður á veg. Snjómagnið er sagt töluvert en náði þó ekki yfir veginn eins og fyrstu ábendingar gáfu til kynna.
Austurfrétt mun uppfæra þessar fregnir eftir því færi gefst en engir bílar eða fólk varð fyrir flóðinu eftir því sem best verður komist á þessari stundu.