Starfslok Björns í samræmi við ráðningarsamning

Björn Ingimarsson hættir sem sveitarstjóri Múlaþings um næstu áramót þegar ráðningarsamningur hans rennur út. Hann segist ákveðið að sækjast ekki eftir að nýta ákvæði sem heimilar framlengingu samningsins út kjörtímabilið en kveðst reiðubúinn að skoða málið ef vandkvæði verða á ráðningu eftirmanns.

Björn kom upphaflega sem starfa sem bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs að loknum sveitarstjórnarkosningum sumarið 2010. Hann varð síðan sveitarstjóri Múlaþings þegar það varð til við sameiningu Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Borgarfjarðarhrepps og Djúpavogshrepps haustið 2020.

Björn var endurráðinn við myndum meirihluta í sveitarstjórn Múlaþings að loknum sveitarstjórnarkosningunum vorið 2022. Sá samningur gildir til 31. desember næstkomandi, daginn eftir að hann verður 70 ára.

„Þetta var niðurstaðan á sínum tíma að hafa þetta ákvæði inni. Það var upplegg meirihlutans, ekki mitt frumkvæði. Ég er sáttur við að það hafi verið inni. Ég horfi á ýmis verkefni sem ég get farið í sem ég hefði ekki getað gert samhliða starfi mínu sem sveitarstjóri,“ segir Björn.

Ákvað að óska ekki eftir framlengingu


Í samningnum segir þó að hvort heldur sem er Björn eða sveitarstjórnin geti, fyrir lok október, framlengt samninginn út kjörtímabilið. „Eftir að hafa farið yfir þetta með sjálfum mér var það niðurstaða mín að óska eftir ekki eftir framlengingu á samningnum og ég vildi upplýsa sveitarstjórn um það með góðum fyrirvara.

Það er alls ekki þannig að ég hafi ekki haft gaman í vinnunni en einhvern tíma verður að hætta og snúa sér að öðru,“ segir Björn. Ákvörðun hans var tilkynnt á starfsmannafundi í síðustu viku og gefin út á heimasíðu Múlaþings í kjölfarið.

Reiðubúinn að halda áfram meðan þarf


Starfið var auglýst í gær með umsóknarfresti til 8. október. Þar er meðal annars farið fram á farsæla reynslu af stjórnun,rekstri og fjármálun, þekkingu og reynslu af opinberri stjórnsýslu auk þess sem reynsla af störfum á sveitarstjórnarstigi er sögð kostur. Þá er beðið um áhuga á uppbyggingu samfélagsins, kynningarmálum, ímynd og stefnumótun. Intellecta vinnur með Múlaþingi í ráðningarferlinu.

Samningur nýs sveitarstjóra getur hins vegar vart gilt lengur en fram að næstu kosningum vorið 2026, eða í eitt og hálft ár. Því á eftir að reyna hvort umsækjendur séu tilbúnir að stökkva á starfið með ekki meira öryggi. Björn segist ekki óttast það. „Það kæmi mér á óvart ef það berast ekki umsóknir. Það er ekki eindæmi að sveitarstjóri sé ráðinn þegar eitt og hálft ár er eftir, við höfum síðan það í nágrenni við okkur og víðar.“

Í samningi Björns er ákvæði um að við lok samningstíma eigi hann rétt á biðlaunum í sex mánuði. Hann er þó skuldbundinn til að vinna með nýrri sveitarstjórn í þrjá mánuði gerist þess þörf, sem aftur seinka biðlaunum. Björn segist standa sína plikt ef það dregst á langinn að finna nýjan sveitarstjóra eða hann þarf stuðning í byrjun.

„Ég sagði oddvitum framboðanna á fundi að ef það kæmu upp einhver vandræði þá væri ég ekki rokinn í burtu. Það er kveðið á um það í samningnum að ég geti sinnt störfum með eftirmanni í þrjá mánuði. Ef það kemur ósk um annað (að halda áfram) þá myndi ég skoða það en þetta er mín niðurstaða eins og er.“

Björn segist hafa hug á að snúa sér að nýjum verkefnum þegar hann lýkur störfum hjá Múlaþingi um áramótin. „Ég er ekki að setjast í helgan stein, þótt ég reikni frekar með að byrja á að taka mér hvíld. Síðan sný ég mér að öðrum verkefnum. Ég starfaði áður sem ráðgjafi á sviði sveitarstjórnarmála og get alveg hugsað mér að koma að verkefnum með sveitarfélögum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar