Stefán Þórarinsson heiðraður fyrir starf sitt í þágu heilbrigðisþjónustu á Austurlandi

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Stefáni Þórarinssyni, heimilislæknir og fyrrverandi framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, viðurkenningu fyrir störf hans í þágu stofnunarinnar í tilefni af 20 ára afmæli hennar.

Viðurkenningin var afhent í morgun á árlegum vísinda- og fræðadegi HSA, sem í fyrsta sinn er opinn almenningi.

Stefán var meðal lykilfólks í því að heilbrigðisstofnanir á Austurlandi voru sameinaðar í eina árið 1999. „Það voru deildar meiningar um sameininguna. Þetta var stórt skref án fyrirmyndar. Þetta voru sjö litlar stofnanir sem allar þurftu að leita til Reykjavíkur eftir ýmsu, stóru sem smáu.

Þær þurftu að leita til embætti landlæknis eftir læknum og eftir í heilbrigðisráðuneytið. Þá var enginn starfsmaður með málefni heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni svo erindin enduðu oft hjá ráðherra,“ rifjaði Stefán upp í þakkarræðu sinni.

Hann sagðist telja sameininguna heillaspor. Nauðsynlegt hefði verið að sameina kraftana til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. „Með þessu öðluðumst við styrk hér heima til að mæta áskorunum.“

Stefán er fæddur árið 1947 og bjó á Eiðum til 16 ára aldurs þar sem faðir hans var skólastjóri. Tilviljum réði því þó að Stefán réðist í Egilsstaði sumarið 1976, í lok kandídatsárs síns. Hann varð héraðslæknir Austurlands árið 1982 og starfaði sem slíkur í 20 ár, að þau embætti voru lögð niður.

Sem héraðslæknir var Stefán fulltrúi heilbrigðisyfirvalda á Austurlandi og tengiliður þeirra við heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og hjúkrunarheimili sveitarfélaga á Austurlandi. Þetta var til viðbótar fullu starfi í heimilislækningum á Egilsstöðum.

Í æviágripi sem forsetinn las upp í morgun kom fram að í héraðslæknisstarfinu hefði Stefán fundið vel fyrir hversu einangraðar heilbrigðisstofnanir á Austurlandi væru hver frá annarri og stjórnunarlega veikar. Þetta skapaði viðkvæmt heilbrigðiskerfi og fyrirkomulagið torveldaði alla þróun og samvinnu innan svæðis. Eftir mikla vinnu varð Heilbrigðisstofnun Austurlands stofnuð 1. janúar 1999, fyrst allra heilbrigðisstofnana hérlendis. Þær eru nú orðnar sex talsins, ein fyrir hvern landshluta.

Með tilkomu stofnunarinnar tók Stefán við starfi framkvæmdastjóra lækninga. Því starfi gegndi hann til ársins 2013.

Forsetinn afhenti, fyrir hönd HSA, Stefáni listaverk að gjöf eftir Hlyn Halldórsson á Miðhúsum.

Stefán notaði tækifærið til að þakka samstarfsfólki sínu. Minntist hann sérstaklega Guðrúnar Sigurðardóttur hjúkrunarforstjóra í Neskaupstað og Lilju Aðalsteinsdóttur, fyrsta framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá stofnuninni fyrir framlag þeirra til að koma henni á laggirnar.

Eins þakkaði hann Emil Sigurjónssyni, núverandi mannauðsstjóra, sem áður veitti heilbrigðismálum á Vopnafirði forstöðu og sagði Emil strax hafa verið einarðan stuðningsmann sameinaðrar stofnunar. Stefán minnti á að heilbrigðisstofnun væri ekkert án góðra starfsmanna og sagði Emil hafa gegnt lykilhlutverki við að halda utan um starfsfólk.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar