Stór meirihluti Austfirðinga vill aukna orkuöflun

Stór meirihluti Austfirðinga virðist á þeirri skoðun að mjög eða fremur miklu máli skipti að afla aukinnar orku á Íslandi en nú er til staðar. Litlu færri hafa sterka skoðun á hvort vindorkuframleiðsla til framtíðar eigi að vera í höndum opinberra aðila eða einkaaðila.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun sem Maskína framkvæmdi um land allt í lok ágúst og hvers niðurstöður voru birtar nýverið.

Könnun þessi var að stórum hluta bundin við skoðanir fólks á vindorkuveri við Búrfellslund neðan við Sultartangastíflu í Rangárþingi ytra en þar stendur til að reisa 30 vindmyllur á 17 ferkílómetra svæði fyrir lok árs 2026 sem yrði þar með fyrsta stóra vindorkuverið sem rís í landinu. Sléttur helmingur svarenda af Austurlandi var mjög eða fremur hlynntur vindorkuveri á þeim stað.

Tveimur almennari spurningum var þó varpað fyrir þátttakendur sem voru í heildina 1.049 talsins um land allt. Sú fyrri var hversu miklu máli fólk teldi þörfina á aukinni orkuöflun á landsvísu. Svör af Austurlandi ótvíræð því 73,5% svarenda sögðu það skipta mjög miklu eða fremur miklu máli meðan um 11% sögðu að skipta litlu sem engu. Rúm 15% sögðu þörfina í meðallagi.

Þátttakendur voru jafnframt spurður út í hvort máli skipti hvort vindorkuframleiðsla í landinu væri almennt í höndum opinberra aðila, svo sem Landsvirkjunar, eða einkaðila. Svörin þar einnig nokkuð ótvíræð en tæplega 66% svarenda af Austurlandi sögðu skipta mjög eða fremur miklu máli að hið opinbera fari með þau mál. Tæplega 11% svarenda sögðu það skipta litlu sem engu máli.

Teikning Landsvirkjunar af vindorkuverinu sem koma skal upp í Búrfellslundi. Verið á að vera komið í gagnið í lok árs 2026.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar