Stórbruni í þvottahúsi Vasks
Mikill eldur er laus í þvottahúsi Vasks á Egilsstöðum. Slökkvilið og aðrir viðbragðsaðilar eru á staðnum. Engin meiðsli urðu á fólki.Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu leggur mikinn reyk frá staðnum til norðurs. Hann sést um svo að segja allt Fljótsdalshérað. Nágrannar eru beðnir um að loka gluggum og fólk að vera ekki á ferðinni í nágrenninu þar sem það getur hindrað störf viðbragðsaðila. Lögregla hefur girt svæðið af.
Eldurinn kom upp um klukkan 16:20 í dag. Slökkvistarf er nýhafið. Sjúkrabílar eru á staðnum en ekki er talið að fólk hafi verið inni í þvottahúsinu þegar eldurinn kom upp.
Uppfært 17:00
Fréttamaður Austurfréttar, sem er á vettvangi, segir eldinn hafa borist inn í verslun Vasks úr þvottahúsinu. Landsnet er með aðstöðu í þeim enda hússins sem snýr að miðbæ Egilsstaða. Engan reyk er að sjá úr því bili. Slökkvistarf er í fullum gangi. Talið er að eldurinn hafi kviknað í þvottahúsinu, þar er enn mikill eldur.
Sjónarvottur sem Austurfrétt ræddi við skömmu áður sagði Vaskhluta hússins alelda. Mikill hávaði væri, snark og litlar sprengingar sem heyrast jafnvel í næstu hús. Eldur hafði borist í bíl sem stóð framan við verslunina. Hann sagði aðkomuna hafa verið svakalega.
Vaskur er í iðnaðarhverfinu, efst á Egilsstöðum. Næsta hús fyrir innan er Brúnás en vindurinn stendur af því húsi. Í næsta húsi fyrir ofan Vask er aðstaða björgunarsveitarinnar Héraðs.
Uppfært 17:20
Fréttamaður Austurfréttar á staðnum segir aðeins hafa sljákkað í þvottahúsinu en mikill eldur sé í versluninni. Dökkan, ógeðslegan reyk liggi yfir bæinn. Fjöldi fólks fylgist með en úr öruggri fjarlægð. Lögregla hefur lokað svo að segja öllum götum og umferðarteppa sé að myndast því um að ræða aðalumferðaræðina í gegnum Egilsstaði. Svo virðist sem slökkviliðinu sé að berast liðsauki annars staðar að en það hefur ekki fengist staðfest.
Uppfært 17:40
Reykurinn hefur minnkað mikið og er orðinn ljós. Engar eldglæður eru lengur sjáanlegar. Tveir bílar eru brunnir, annar baka til, hinn fyrir framan. Sprengingar heyrðust um allan bæ þegar eldurinn kviknaði.
Uppfært 18:10
Slökkvilið virðist smátt og smátt vera að ná tökum á eldinum. Kranabíll kom á svæðið skömmu fyrir sex til að hægt væri að komast betur að þaki hússins. Bil Landsnets virðist hafa verið tryggt, að minnsta kosti úr fjarska séð. Byrjað er að hleypa umferð framhjá svæðinu en miklar raðist mynduðust þar sem Fagradalsdbraut, aðalumferðaræð bæjarins, er beint fyrir framan húsið.
Ljóst er þó að tjónið er gríðarlegt á þvottahúsi og verslun Vasks. Fyrirtækið er umsvifamikið í samfélaginu eystra, þangað fer þvottur úr fjölmörgum gistiheimilum á svæðinu auk þess verslunin er lykilstaður fyrir tómstundavörur svo sem reiðhjól, útivistarfatnað, prjónavörur, hreinlætisvörur og fleira.
Uppfært 18:20
Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni segir slökkvilið hafa unnið þrekvirki. Útlit sé fyrir að það takist að bjarga öðrum rýmum í húsinu, eins og áherslan hefur verið á síðan slökkvistarf hófst. Eldur er ekki lengur sjáanlegur. Ekkert er hægt að segja um upptök eldsins.
Landsnet er með skrifstofu, lager og sal fyrir tæki í hinum enda hússins. Samkvæmt upplýsingum þaðan er búið að ná tækjum út sem og gaskútum og öðru sem sprengihætta stafaði af. Ekkert er vitað um áhrif á starfsemina nú, aðeins vonast að slökkviliði gangi sem best.
„Okkur þykir mjög leiðinlegt og sárt að sjá fyrirtækið okkar fara svona illa. En það sluppu allir ómeiddir úr húsinu,“ segir í Facebook-færslu Vasks.
Uppfært 19:00
Enginn eldur er lengur sjáanlegur, aðeins reykur. Sá hluti hússins sem tilheyrði Vaski virðist gerónýtur, ekkert stendur uppi af honum. Í tilkynningu lögreglu segir að enginn hafi enn leitað læknisaðstoðar eftir brunann.
Uppfært 19:45
Slökkviliðið er að eltast við glæður í þeim hluta hússins sem tilheyrði Vaski. Vel virðist hafa tekist til við að verja hluta Landsnets. Það verk heldur áfram og heldur slökkviliðið áfram inn í nóttina. Slökkvistjóri segir slökktistarfið hafa gengið frábærlega miðað við aðstæður. Íbúar á Egilsstöðum eru minntir á að hafa gætur á gagnvart reyk sem leggur frá svæðinu og loka gluggum.
Uppfært 21:55
HEF veitur hafa beðið íbúa að spara kalda vatnið vegna slökkvistarfa.
Uppfært 22:30
Enn er verið að leita að glæðum í því efni sem liggur á gólfi hússins. Það mun standa fram eftir nóttu. Landsnet og aðgerðastjórn koma á framfæri þökkum til íbúa og viðbragðsaðila.
Myndir: Jóhann Hjalti Þorsteinsson, Albert Örn og Unnar Erlingsson