Súrt að sjá á eftir selnum

Seyðfirðingur segir súrt að sjá að sjá seli sem unnt hafa sér í sambúð við mannfólk liggja eftir skotna við sjávarborð. Fyrir því kunni þó að vera gildar ástæður. Ráðherra hefur lagt til algert bann við selveiðum.

Mynd sem Ólafur Örn Pétursson, staðarhaldari á Skálanesi við Seyðisfjörð, setti inn á Facebook um helgina af dauðum sel á Vestdalseyri hefur vakið nokkur viðbrögð.

Í færslunni lýsir Ólafur vonbrigðum sínum með að selurinn, sem hafi verið orðinn merkilega gæfur og haldið til við ós Vestdalsár, hafi verið skotinn og að því virðist látinn liggja í fjörunni án þess að hræið væri fjarlægt eða skrokkurinn nýttur frekar.

Í samtali við Austurfrétt segist Ólafur ekki vita hvar selurinn hafi verið skotinn, mögulega hafi hann verið skotinn úti í sjó og síðan rekið í land. Hann viti heldur ekki hvers vegna selurinn hafi verið skotinn. Ólafur því ekki geta áfellst veiðimanninn þó honum þyki viðskilnaðurinn ekki góður.

Í tilkynningu frá yfirhafnarverði Seyðisfjarðarkaupstaðar, sem birtist á vef bæjarins í gær, er í tilefni umræðunnar um seladrápið minnt á að öll meðferð skotvopna sé óleyfileg á innra hafnarsvæðinu án leyfis hafnaryfirvalda. Það svæði nær út fyrir Vestdalseyrina.

Samkvæmt skýrslu Hafrannsóknastofnunar frá í sumar hefur landsel við Austfirði fjölgað síðustu ár þótt stofninn sé í lágmarki á landsvísu. Ýmsar ástæður eru nefndar fyrir fækkuninni, svo sem að ágangur mannfólks að selasvæðum styggi þá og að þeir slæðist með í veiðarfæri sjómanna. Selir hafa löngum verið sakaðir um að vera vargar í mynni laxveiðiáa og fleiri nytjasvæðum auk þess sem afurðir af þeim hafa verið seldar.

Á föstudag birti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tillögur um selveiðar verði bannaðar með öllu á íslensku forráðasvæði, nema að fengnu sérstöku leyfi frá Fiskistofu á selveiðum til eigin nota. Um leyfið verði hægt að sækja einu sinni á ári. Jafnframt verði öll sala á sel og selaafurðum bönnuð.

Mynd: Ólafur Örn Pétursson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.