Svæðisfélög VG á Austurlandi sameinuð
Svæðisfélög Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á Austurlandi voru sameinuð á aukaaðalfundi á föstudag.Til þessa hafa félögin verið tvö: annars vegar í Fjarðabyggð og Djúpavogshreppi og hins vegar með Fljótsdalshéraði, Fljótsdalshrepp, Seyðisfjarðarkaupstað og Borgarfjarðarhrepp.
Á aðalfundunum var einróma samþykkt að stofna nýtt svæðisfélag fyrir allt Austurland. Strax í kjölfarið var haldinn stofnfundur þess nýja félags.
Þar var kosið í stjórn en í henni sitja: Ingibjörg Þórðardóttir Neskaupstað, Kristján Ketill Stefánsson Fljótsdalshéraði og Svandís Egilsdóttir Seyðisfirði. Varamenn eru: Arnar Guðmundsson Neskaupstað og Árni Kristinsson, Fljótsdalshéraði. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi.
Í tilkynningu segir að um sé að ræða tímamót í pólitísku starfi á Austurlandi. Svæðisfélögin hafi í fullri einingu sýnt metnaðarfullt fordæmi og brotið blað í sögunni með sameiningu á svæðisvísu. Væntanlegt framboð flokksins í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi sé fyrsta stóra skrefið að frekari eflingu hreyfingarinnar í fjórðungnum. Íbúar séu boðnir velkomnir til þátttöku í öflugri hreyfingu með skýra og metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir Austurland allt.