Sveitarstjóraskipti hafa ekki áhrif á Finnafjörð
Umskipti á sveitarstjórum á Vopnafirði og Langanesbyggð hafa ekki áhrif á vinnu við undirbúning stórskipahafnar í Finnafirði.Þetta segir Holger Bruns, talsmaður Bremenports, í svari við fyrirspurnum Austurfréttar. Rúmar tvær vikur eru síðan Þór Steinarsson lét af störfum hjá Vopnafirði og fyrir helgina var tilkynnt að Elías Pétursson, sveitarstjóri í Langanesbyggð, hefði verið ráðinn bæjarstjóri Fjallabyggðar.
Holger bendir á að Finnafjarðarverkefnið byggi á samningi milli sveitarfélaganna tveggja, verkfræðistofunnar Eflu og Bremenports. „Breytingar á sveitarstjórnum hefur ekki áhrif á samninginn.“
Hræringar hafa verið á fleiri sviðum í stjórnmálunum í kringum Finnafjarðarverkefnið en á Íslandi. Skömmu eftir að samstarfssamningur um verkið var undirritaður í apríl í fyrra var kosið í fylkisstjórnina í Bremen.
Þar missti Jafnaðarmannaflokkurinn, sem haft hefur meirihluta frá lokum seinni heimsstyrjaldar, meirihluta sinn. Í kjölfarið lét Martin Günther, sem skrifaði undir samninginn fyrir hönd fylkisins, af embætti sem ráðherra hafnarmála.
En Jafnaðarmannaflokkurinn er enn í meirihluta, að þessu sinni með Græningjum við við af Günther tók samflokkskona hans dr. Claudia Schilling. Holger segir að þær breytingar hafi engin áhrif á framgang Finnafjarðarverkefnisins, frekar en sveitarstjóraskiptin.
Í lok síðasta árs var lokið við að stofna tvö félög til að vinna að undirbúningi mögulegrar stórskipahafnar í firðinum. Holger segir að þessa stundina sé unnið að margvíslegum undirbúningi og samningum, bæði um tæknilega útfærslu hafnarinnar, sem og viðskiptahlið hennar auk viðræðna við landeigendur.