![](/images/stories/news/2023/Hafnarhólmi.jpg)
Taka upp gjaldtöku í Hafnarhólmann
Heimastjórn Borgarfjarðar eystri hyggst leggja það til við sveitarstjórn Múlaþings að tekin verði upp gjaldtaka fyrir aðgang að Hafnarhólma. Slík gjaldtaka gæti hafist strax á næsta ári.
Hafnarhólminn er einn allra vinsælasti áfangastaður ferðafólks í Borgarfirðinum og reyndar hefur ferðamannafjöldinn verið nægilegur til að tala um hólmann sem einn af vinsælustu ferðamannastöðum Austurlands enda fáir ósnortnir af nærveru við hinn fallega íslenska lunda sem gerir sér heimili þar ár hvert. Rúmlega 40 þúsund gestir voru skráðir hafa heimsótt Hafnarhólma á síðasta ári.
Lengi vel var það raunin að óskað var eftir frjálsum framlögum fólks sem sótti hólmann en Jón Þórðarson, fulltrúi sveitarstjóra á Borgarfirði, segir það hafa gefist illa og því hætt því enginn hafi borgað.
„Það kostar sitt að halda úti þjónustu þarna. Það þarf starfsfólk og annað og það er hugmyndin með gjaldtökunni að dekka þann kostnað. Þá er miðað við að taka gjald af þeim er fara upp stigann í hólmanum en ekki stendur til að heimta gjald fyrir annað.“
Hvað gjaldið verður liggur ekki ljóst fyrir en hugmyndin er að gestir greiði gegnum sérstakt app í símanum til að fá aðgang upp á hólmann. Vænlegt þykir að hefja verkefnið á frjálsum framlögum næsta sumar en svo verði um fast gjald að ræða sumarið 2024.
Óvíða á landinu má augum berja jafn mikinn fjölda lunda á einum og sama blettinum og í Hafnarhólma og fuglinn fagri trekkir að marga ferðalanga. Frá og með næsta ári þurfa þeir að greiða fyrir vilji þeir í návígi við lundann í Borgarfirði.