Telja opið sjókvíaeldi ógna atvinnulífi í Breiðdal

Forsvarsmenn Veiðifélags Breiðdæla vara við að eldi í opnum kvíum í sjó geti valdið miklum skaða á lífríki Breiðdalsár og þar með atvinnulífi í Breiðdal. Atvinnuuppbygging í sveitinni byggi að miklu leyti á laxveiðum.

Forsvarsmenn veiðifélagsins funduðu með atvinnuveganefnd Alþingis í síðustu viku og kynntu þar athugasemdir sínar við frumvarp til laga um fiskeldi. Í athugasemdum sínum krefjast þeir að allt fiskeldi verði á landi, eða í lokuðum kerfum í sjó með geldfiski.

Þeir segja opið sjókvíaeldi í næstu fjörðum ógna tilvist náttúrulegra fiskistofna Breiðdalsár með erfðablöndun norsks eldisfisks, sjúkdómum og lúsasmiti. „Það mun eyðileggja veiði í ánni með óafturkræfum skaða, neikvæðum afleiðingum fyrir búsetuna og orðspor byggðarlagsins,“ segir þar.

Nýverið var gefið út starfsleyfi fyrir eldi í Fáskrúðsfirði og umsókn liggur fyrir um eldi í Stöðvarfirði, utan þess sem eldi hefur verið starfandi í Berufirði um árabil. Í bréfinu er því mótmælt að ákvarðanir um framleiðslu, sem byggja á áhættumati Hafrannsóknastofnunar, verði sett í hendur ráðherra heldur verði það alfarið í höndum stofnunarinnar.

Veiðifélagið hefur um áratug staðið fyrir fiskirækt í ánni þar sem seiði úr klaki af fiski, veiddum í ánni, er alin og sleppt. Vísað er til þess að Hafrannsóknastofnun hafi rannsaki laxastofninn í ánni og hafi staðfest að í henni sé „náttúrulegur og austfirskur Breiðdalsárstofn.“ Áin gegni burðarhlutveri í varðveislu stofna fyrir aðrar ár eystra.

Talsmenn veiðifélagsins vara við efnahagslegum áhrifum þess ef lífríki árinnar skaðast af völdum sjókvíaeldis. Bent er á að 8-14 manns starfi í kringum veiðina á sumrin og 2-3 á sumrin. Þá sé ekki litið til afleiddra starfa. Áin gegni því stóru hlutverki í atvinnulífinu í Breiðdal.

Hún sé ekki eingöngu veiðiá, heldur sé hún hjartað í sveitinni, sé Breiðdælingum kær og laði til sín ferðafólk.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.