Telja opið sjókvíaeldi ógna atvinnulífi í Breiðdal
Forsvarsmenn Veiðifélags Breiðdæla vara við að eldi í opnum kvíum í sjó geti valdið miklum skaða á lífríki Breiðdalsár og þar með atvinnulífi í Breiðdal. Atvinnuuppbygging í sveitinni byggi að miklu leyti á laxveiðum.Forsvarsmenn veiðifélagsins funduðu með atvinnuveganefnd Alþingis í síðustu viku og kynntu þar athugasemdir sínar við frumvarp til laga um fiskeldi. Í athugasemdum sínum krefjast þeir að allt fiskeldi verði á landi, eða í lokuðum kerfum í sjó með geldfiski.
Þeir segja opið sjókvíaeldi í næstu fjörðum ógna tilvist náttúrulegra fiskistofna Breiðdalsár með erfðablöndun norsks eldisfisks, sjúkdómum og lúsasmiti. „Það mun eyðileggja veiði í ánni með óafturkræfum skaða, neikvæðum afleiðingum fyrir búsetuna og orðspor byggðarlagsins,“ segir þar.
Nýverið var gefið út starfsleyfi fyrir eldi í Fáskrúðsfirði og umsókn liggur fyrir um eldi í Stöðvarfirði, utan þess sem eldi hefur verið starfandi í Berufirði um árabil. Í bréfinu er því mótmælt að ákvarðanir um framleiðslu, sem byggja á áhættumati Hafrannsóknastofnunar, verði sett í hendur ráðherra heldur verði það alfarið í höndum stofnunarinnar.
Veiðifélagið hefur um áratug staðið fyrir fiskirækt í ánni þar sem seiði úr klaki af fiski, veiddum í ánni, er alin og sleppt. Vísað er til þess að Hafrannsóknastofnun hafi rannsaki laxastofninn í ánni og hafi staðfest að í henni sé „náttúrulegur og austfirskur Breiðdalsárstofn.“ Áin gegni burðarhlutveri í varðveislu stofna fyrir aðrar ár eystra.
Talsmenn veiðifélagsins vara við efnahagslegum áhrifum þess ef lífríki árinnar skaðast af völdum sjókvíaeldis. Bent er á að 8-14 manns starfi í kringum veiðina á sumrin og 2-3 á sumrin. Þá sé ekki litið til afleiddra starfa. Áin gegni því stóru hlutverki í atvinnulífinu í Breiðdal.
Hún sé ekki eingöngu veiðiá, heldur sé hún hjartað í sveitinni, sé Breiðdælingum kær og laði til sín ferðafólk.