Telur ekki svigrúm til stórfelldra hækkunar veiðigjalda
Forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað telur ekki svigrúm til að hækka veiðigjöld til viðbótar annarri gjaldahækkun sem sjávarútvegsfyrirtæki standa frammi fyrir.Þetta kemur fram í áramótaávarpi Gunnþórs Ingvasonar, forstjóra. Þar gerir hann að umtalsefni það sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar um að tekin yrðu upp „réttlát auðlindagjöld“
Gunnþór segir að sjávarútvegurinn hafi aldrei hafnað réttlátum auðlindagjöldum. Hins vegar sé ekki ekki svigrúm til stórfelldar hækkunar veiðigjalda á sama tíma önnur sértæk gjöld á útgerðina séu að hækka. Hann nefnir að um síðustu áramót hafi orðið mikil hækkun á veiðigjöld uppsjávarfisks og kolefnisgjöld, sem ekki séu á í sumum samkeppnislandanna, á sama tíma. Þá hafi orkukostnaður rokið upp.
Gunnþór ræðir einnig loforð ríkisstjórnarinnar um að tryggðir verði 48 dagar til strandveiða. Hann segir að ef veiðiheimildir verði fluttar til strandveiða úr kvótakerfinu þá muni fyrirtæki í kvótakerfinu þurfa að hagræða. Það geti leit af sér samþjöppun í vinnslu, fækkun skipa og þar með fækkun starfsfólks.
Gunnþór er einnig þeirrar skoðunar að óheftar strandveiðar auki ekki verðmæti íslensks sjávarútvegs og bendir til þess að í Noregi lækki verðið á þeim tíma sem smábátar stundi frjálsar veiðar.
Öll ár krefjandi í sjávarútvegi
Hann fer einnig yfir nýliðið ár og horfurnar framundan í pistlinum. Hann segir síðasta ár hafa verið krefjandi eins og önnur í sjávarútvegi sem búi við sveiflur frá náttúrunnar hendi. Í fyrra var enginn loðnukvóti gefinn út og makrílveiði dróst saman. Á móti var staða á makrílmörkuðum góð. Kolmunnaveiðar gengu vel og síldveiðar teygðust fram í desember með stóraukinni vinnslu til manneldis.
Enginn loðnukvóti hefur enn verið gefinn út en Gunnþór kveðst þó bjartsýnn á að svo verði. Áfram verði líklega samdráttur um makríl og ósamið sé um deilistofna. Á móti séu markaðsaðstæður góðar og Síldarvinnslan vel mönnuð til að mæta áskorunum hvort sem þær eru af völdum náttúru eða manna.