Tesla boðar ofurhleðslustöð á Egilsstöðum

Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla birti nýverið upplýsingar á vef sínum um að ein af þremur væntanlegum ofurhleðslustöðvum þess hérlends verði staðsett á Egilsstöðum. Talsmaður fyrirtækisins segir markmiðið að koma upp stöðvum þannig að eigendur Teslu bifreiða geti ferðast í kringum landið.

„Við byggjum ofurhleðslustöðvar (e. Supercharger) á þeim stöðum sem eigendur bílanna vilja sækja. Markmiðið er að hægt sé að keyra milli borga, sækja vinsæla ferðamannastaði og svo framvegis,“ segir Even Sandvold Roland, talsmaður Tesla í Noregi í svari við fyrirspurn Austurfréttar.

Á vef fyrirtækisins er einungis gefið upp að væntanleg sé innan tíðar stöð á Egilsstöðum og stefnt að opnun hennar á næsta ári. Ekki er gefið upp nákvæmlega hvar hún verði í bænum. Even segir ekki frekari upplýsingar að fá um stöðina á þessari stundu. Að auki verða stöðvar á Kirkjubæjarklaustri og Stað í Hrútafirði.

Ofurhleðslustöðvar Teslu eru með nokkrum stæðum þar sem Teslu-eigendur geta hlaðið bíla sína með tengingu sem flytur allt að 150 kW. Það þýðir að á 30 mínútum er hægt að hlaða á bílana nógu rafmagni til að keyra 300 km. Stöðvarnar eiga að vera einfaldar í notkun og geta bíleigendurnir að geta fengið meldingu í snjallsímaforrit ef þeir bregða sér frá meðan farartækið er hlaðið.

Ofurhleðslustöðvarnar eru ætlaðar þeim sem hyggja á langferðir en flestir rafbílaeigendur hlaða bíla sína heima fyrir á nóttunni. Hleðsla Teslu-bifreiðar dugir í allt að 610 km akstur sem á að vera nóg fyrir flesta.

„Þegar við komum með Ofurhleðslustöðvar til Íslands viljum við byggja þær smá saman upp á lykilstöðum sem gera eigendum Teslu-bifreiða kleift að komast auðveldlega á mikilvægustu og vinsælustu áfangastaðina,“ segir Even.

Hjá sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði fengust þær upplýsingar að ekki hefði enn borist erindi með ósk um leyfi til uppsetningu stöðvar á vegum Teslu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.