![](/images/stories/news/2021/tjaldsvaedi_egs_20210625_0005_web.jpg)
Þéttsetið á tjaldsvæðum
Sólþyrstum Íslendingum fer fjölgandi á Austurlandi enda spáð hitabylgju næstu daga. Tjaldsvæði í fjórðungnum eru orðin þéttsetin.„Við sáum á miðvikudag að fólk var að komast í frí og fylgdist með veðurspánni,“ segir Heiður Vigfúsdóttir, sem stýrir tjaldsvæðinu á Egilsstöðum.
Hún segir vera orðið þéttsetið þar, einkum þar sem hægt sé að komast í rafmagn og hafi fengið sömu upplýsingar frá tjaldsvæðum í nágrenninu. Nóg sé hins vegar eftir af pláss fyrir þá ferðalanga sem ekki þurfa á rafmagni að halda. Á Egilsstöðum er búið að stækka tjaldsvæðið og notað svæði handan götunnar.
Á vef tjaldsvæðisins, campegilsstadir.is, er að hægt að bóka tjaldsvæði þannig ekki lengur gildir að fyrstir koma fyrstir fái og geti breytt úr sér. „Það eru allmörg tjaldsvæði komin með svona bókunarkerfi. Íslendingar eiga kannski eftir að venjast þessu en þetta er framtíðin. Þarna er hægt að fylgjast með stæðum og bóka þegar losnar,“ útskýrir Heiður.
Hún segir vel fara um gesti á tjaldsvæðinu í dag en þar, eins og víðar á Austurlandi, er hitinn kominn í yfir 20 stig og spáð að svo verði áfram næstu daga.
„Ég var að taka hring á tjaldsvæðinu og það liggur mjög vel á fólki. Það er fegið að komast í smá D-vítamínbað eftir langan vetur. Sumir flatmaga á tjaldsvæðinu en síðan er líka stutt í þjónustu og áhugaverða staði í kring fyrir þá sem vilja skoða sig um,“ segir Heiður.