Þingmenn einhuga að baki Fjarðarheiðargöngum
Þingmenn Miðflokksins lýstu einhuga stuðningi við Fjarðarheiðargöng á fundi flokksins um samgöngumál á Eskifirði í síðustu viku og sögðu aðra þingmenn kjördæmisins sama sinnis. Formaður samgöngunefndar þingsins segir vart aðrar leiðir færar en taka upp veggjöld til að greiða fyrir samgöngubótunum.Jarðgangamál á Austurlandi urðu aðalumræðuefni fundarins en meðal framsögumanna var Ágúst Guðmundsson jarðfræðingur, sem varaði við mögulegum erfiðleikum við gerð ganga undir Fjarðarheiði.
Þeir þingmenn flokksins sem sátu í pallborði, þau Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólafsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, lýstu þó öll stuðningi við göngin þegar Rúnar Gunnarsson, formaður bæjarráðs Seyðisfjarðar, spurði þau beint út í afstöðu þeirra til ganganna.
„Þingmaðurinn segir já. Hann segir já núna sem fyrr sem áfram,“ sagði Anna Kolbrún. Sigmundur Davíð sagði hreint „já“ við spurningu um hvort hann styddi Fjarðarheiðargöng.
Þingmenn kjördæmisins á einu máli
Bergþór, sem jafnframt er formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, sagðist svara spurningunni játandi. Áður hafði hann sagst standa með jarðgangnaframkvæmdum á Austurlandi. Bergþór, sem er þingmaður Norðvesturkjördæmis, sagði að bæði forsvarsfólk sveitarfélaga á Austurlandi sem og þingmenn Norðausturkjördæmis væru á sömu línu að baki Fjarðarheiðargögnum. Í þinginu væru ákvarðanir almennt teknar á grundvelli þeirrar línu sem heimamenn legðu.
„Ég er stuðningsmaður þess að við förum í vinnu við jarðgöng sem víðast um landið. Ég hef ekki komið mér upp sannfæringu um legu ganga á Austurlandi, um hana verða sérfræðingar og heimamenn að ráðleggja og þá er horft til sjónarmiða eins og sameiginlegrar línu þingmannahóps kjördæmisins og sveitarfélaga.
Mér heyrist að þingmennirnir hafi lagt línu um að meðan ekki komi upp vandkvæði um rannsóknir og jarðfræði séu Fjarðarheiðargöng í forgangi. Þar megi hins vegar ekki láta staðar numið heldur halda áfram að tengja um firði,“ sagði Bergþór á fundinum.
Samhljómur mikilvægur
Hann sagði að mögulega gæti tíma að grafa öll þau göng sem þarf til að hringtenging frá Fljótsdalshéraði undir Fjarðarheiði og áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð verði að veruleika en það ætti að hafast. Á sama tíma verði framkvæmdum á öðrum svæðum ekki hætt. Austfirðingar yrðu samt að vera ákveðnir í sínum kröfum. „Austfirðingar mega ekki að vera litlir í sér í sínum kröfum. Göng eru bara dýr vegur.“
Hann ítrekaði mikilvægt þess að Austfirðingar sýndu samstöðu um jarðgöngin. „Það er tosast á um fjármunina úr öllum áttum. Ósætti í einu kjördæmi er það besta sem þingmenn annarra upplifa.“
Suðurfjarðavegur og veggjöld
Ýmsar fleiri framkvæmdir voru til umræðu á fundinum og benti Bergþór meðal annars á að ekki gengi að framkvæmdir til annarra vegaframkvæmda yrðu nær engar á sama tíma og mestur þungi væri í gerð Fjarðarheiðarganga. Talsverð umræða skapaðist um að hraða þyrfti framkvæmdum við Suðurfjarðaveg.
Bergþór gerði ástand flugbrautarinnar á Egilsstöðum einnig að umtalsefni og sagði hana ekki nema á einn vetur setjandi. Ekki væri annað í stöðunni en að finna fjármagn til að fara í endurbætur á yfirborði hennar.
Nokkuð var spurt um möguleg veggjöld á fundinum. Bergþór svaraði að hann væri enginn áhugamaður um veggjöld en augljóst væri að ef ráðast ætti í jafn umfangsmiklar framkvæmdir og boðaðar væru í samgönguáætlun yrði að finna fjármagn í þeim. Ein leið til þess væru veggjöld sem einkum væru ætluð til að ná fjármunum af þeim sem nýta viðkomandi leiðir sjaldan. Bergþór ítrekaði þó að mikilvægast væri að hærra hlutfall þeirra skatta sem eru á umferð og bifreiðum í dag renni til samgöngumála.
Hann sagðist ekki geta svarað fyrir með hvaða hætti veggjöldin yrðu innheimt. Alþingi hefði beðið eftir drögum að lögum eða regluverki frá samgönguráðherra um veggjöld í meira en ár en en hefði ekkert borist.