Þór hættur sem sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps

Þór Steinarsson hefur látið af störfum sem sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps,. Samkomulag var gert um starfslok í dag.

Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Þór að hann hafi komist að samkomulag við sveitarstjórnina um starfslok.

Ástæðan sé fyrst og fremst ólík sýn hans og sveitarstjórnar á hlutverk og störf sveitarstjóra. Við svo búið sé heppilegast að leiðir skilji.

Hann segir það hafa verið heiður að starfa við hlið öflugs og gríðarlega hæfs starfsfólks á öllum sviðum sem endurspegli hið magnaða samfélag sem sé í Vopnafirði. Hann kveðst þakklátur fyrir tíma og samveru með Vopnfiðringum sem hafi verið dýrmætur og lærdómsríkur.

Þór segir Vopnfirðinga standa frammi fyrir ýmsum áskorunum en þeirra bíði líka fjölmörg áhugaverð og spennandi tækifæri. Hann óski þeim velgengni í þeim verkefnum.

Sigríður Bragadóttir, oddviti sveitarstjórnar á Vopnafirði, vildi ekki láta neitt hafa eftir sér um málið þegar Austurfrétt óskaði eftir því fyrr í dag. Í tilkynningu sem hún sendi út síðar fyrir hönd sveitarstjórnar er Þór þakkað samstarfið og honum óskað velfarnaðar í framtíðinni.

Þór kom til starfa sem sveitarstjóri í byrjun ágúst 2018. Alls sóttu fimmtán um stöðuna sem auglýst var eftir sveitarstjórnarkosningarnar í lok maí það ár.

Framsóknarflokkur og Betra Sigtún mynduðu meirihluta eftir kosningarnar. Framboðin eiga fimm fulltrúa í sveitarstjórn en Samfylkingin er í minnihluta með tvo fulltrúa.

Fyrst birt 21:20. Uppfært 21:40 með vísun í tilkynningu sveitarstjórnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar