Þórarinn Ingi sækist eftir öðru sætinu

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, segist gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Hann segir að innan flokksins hafi ekki komið annað til greina en sitja áfram í þeirri ríkisstjórn sem starfar þar til ný tekur við.

Í samtölum við Austurfrétt og Vikublaðið í dag staðfesti Þórarinn Ingi að hann hefði hug á öðru sæti lista Framsóknarflokksins.

Hann skipaði þriðja sætið á lista Framsóknarflokksins í kosningunum 2021 en bauð sig fram í annað sætið þá líka í forvali flokksfélaga. Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður frá Fáskrúðsfirði, endaði þá í örðu sætinu og skipaði það í kosningunum en hún gaf það út í dag að hún ætli að hætta á Alþingi.

Ríkisstjórnarskipið strandað


Kosið verður 30. nóvember í kjölfar þess að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, með forsætisráðherrann Bjarna Benediktsson í broddi fylkingar, ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu við Framsókn og VG.

„Fyrst þegar ég hlustaði á þetta þá kom ákvörðunin á óvart. En þegar ég fór að hugsa til baka og velta stöðunni fyrir mér þá var í sjálfu sér ekki annað að gera. Þessu skipi hafði verið siglt í skap. Þetta kom mér samt á óvart því ég hélt við gætum unnið áfram.“

Ráðherrar VG ákváðu að taka ekki sæti í starfsstjórn undir forsæti Bjarna, sem situr þar til ný hefur verið mynduð. Þórarinn segir það ekki hafa verið inni í myndinni hjá Framsókn. „Það kom ekki annað til greina en við sigldum áfram og tækjum þátt í starfsstjórninni þessar vikur sem eftir eru. Við tókum á okkur þetta verkefni sem var að sitja í ríkisstjórn og því fylgir ábyrgð sem við hlaupumst ekki frá þótt boðað sé til kosninga.“

Kosningabarátta sem hentar sauðfjárbóndanum


Kannanir hafa sýnt þó nokkurt fylgistap hjá Framsóknarflokknum þótt staða hans í Norðausturkjördæmi sé sterkari en víða annars staðar. „Ég tel stöðuna í kjördæminu nokkuð góða. Við þurfum að vinna okkar vinnu eins og við höfum til þessa gert í kosningabaráttu. Við reynum að vinna vel og ná til kjósenda. Þetta er spennandi verkefni sem ég óttast ekki.

Við göngum í þetta verkefni með bros á vör. Við þingmennirnir stöndum saman í þessu og ég heyri áhuga að heiman til að koma í slaginn með okkur. Það er allt komið af stað í félögunum í kjördæminu.“

Þórarinn er einnig sauðfjárbóndi í Grýtubakkahreppi og hann segir tímasetningu kosninganna ágæta. „Það var verið að grínast með það í dag að þetta hefði verið gert fyrir bóndann á þinginu og það væri vonlaust að standa í kosningabaráttu á sauðburði.“

Aðspurður um næstu ríkisstjórn segir hann að ekki sé hægt að ræða hana fyrr en úrslit kosninganna liggi fyrir. „Ég held það sé best að segja eins og yfirleitt – að menn gangi óbundnir til kosninga. Síðan verðum við að lúta dómi þjóðarinnar. Eins og sakir standa held ég að ómögulegt sé að spá um hvernig ríkisstjórnin muni líta út – nema ég vil að sjálfsögðu að Framsóknarflokkurinn verði í henni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.