Þórhildur Tinna nýr forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar
Þórhildur Tinna Sigurðardóttir tekur við starfi forstöðumanns Menningarstofu Fjarðabyggðar frá og með 1. desember næstkomandi. Hún tekur við af Jóhanni Ágúst Jóhannsyni.
Menningarstofa sveitarfélagsins var sett á laggirnar 2017 og hefur síðan haft það eina markmið að styðja við og efla allt menningarstarf í sveitarfélaginu í víðustu merkingu þess orðs.
Þórhildur Tinna var ein sex umsækjenda um stöðuna en hún hóf reyndar störf hjá Fjarðabyggð sem verkefnastjóri Menningarstofunnar í septembermánuði og er því komin inn í hlutina nú þegar.
Sjálf státar hún af mastersprófi í menningar- og liststjórnun auk BA gráðu í listfræði. Hún einnig reynslumikil í verkefna- og viðburðastjórnun og borið ábyrgð á framkvæmdastjórn á nokkrum listahátíðum gegnum tíðina.