Þórunn Egilsdóttir látin

Þórunn Egilsdóttir, fyrrverandi þingmaður frá Vopnafirði, lést seint í gærkvöldi á 57. aldursári. Þórunn hafði síðustu misseri glímt við krabbamein.

Þórunn var fædd í Reykjavík árið 1964. Hún lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands en flutti síðan austur á Vopnaförð til starfa við kennslu.

Þar kynntist hún Friðbirni Hauku Guðmundssyni og saman hófu þau sauðfjárbúskap á Hauksstöðum, innsta bæ í Vesturárdal. Þórunn lauk síðan kennaraprófi árið 1999 en hún starfaði við kennslu allt fram til 2008.

Þórunn gegndi fjölda trúnaðarstarfa í sinni heimasveit, en hún var kosin í sveitarstjórn árið 2010 og tók strax við sem oddviti. Hún sinnti þeim störfum þar til hún var kosin á þing fyrir Framsóknarflokkinn í Norðausturkjördæmi vorið 2013.

Þórunn var meðal annars formaður samgönguráðs, fyrsti varaforseti Alþingis 2016-17 og formaður þingflokks Framsóknarflokksins 2015 og svo aftur frá 2016.

Þórunn greindist með brjóstakrabbamein í mars 2019. Hún hafði betur þá og sneri aftur til þingstarfa vorið 2020. Skömmu fyrir síðustu jól kom í ljós að hún stríddi við krabbamein í lifur. Hún hóf þá strax stranga lyfjameðferð og tilkynnti í byrjun þessa árs að hún gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi þingmennsku.

Eftirlifandi eiginmaður Þórunnar er Friðbjörn Haukur Guðmundsson. Þau áttu saman þrjú börn: Kristjönu Louise, Guðmund og Heklu Karen.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.