Skip to main content

Þrefalt meira safnaðist í brotajárnssöfnun Múlaþings en fyrir ári

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. sep 2024 09:37Uppfært 16. sep 2024 09:38

Sú breyting milli ára við brotajárnssöfnun í dreifbýli Múlaþings að sækja grófan úrgang beint að bæjum í stað þess að staðsetja gáma á tilteknum stöðum hafði í för með sér að tæplega 200% meira brotajárn safnaðist.

Sveitarfélagið bauð nýverið, annað árið í röð, upp á hreinsun á brotajárni og grófum úrgangi í sveitunum sem er meðal annars liður í að hreinsa sveitirnar. Í fyrra þurfti fólk þó sjálft að koma grófum úrgangi í gáma á tilteknum stöðum sem getur verið vandasamt eða vonlítið ef um stóra eða þunga hluti eins og bílflök er um að ræða. Sú aðferð skilaði 129 tonnum af brotajárni sem fór í endurvinnslu hjá Hringrás á Reyðarfirði.

Mun betur gekk þó í sumar með því að sækja brotajárnið beint heim á býli og söfnuðust rúmlega 367 tonn af efni nú þrátt fyrir að í allnokkrum tilvikum hafi ekki tekist að ná í efni eins og óskað var eftir. Ástæðurnar nokkrar en helstar þó að aðgengi var ófullnægjandi fyrir stóran vörubíl og í fáein skipti var brotajárnið of stórt eða umfangsmikið svo hægt væri að fjarlægja án tilkostnaðar.

Múlaþing hyggst endurtaka leikinn innan tíðar og verður slíkt auglýst sérstaklega þegar þar að kemur.