Þriðji loðnuleitarleiðangurinn hefst á mánudag

Árni Friðriksson, rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, er væntanlegt til hafnar í kvöld eða fyrramálið en skipið hefur síðustu daga skoðað loðnugöngu úti fyrir Austfjörðum. Kraftur verður settur í loðnuleit í næstu viku.

Öðrum leitarleiðangri þessa árs lauk um síðustu helgi þegar fjögur veiðiskip héldu til hafnar. Árni Friðriksson hélt hins vegar áfram, fór suður með Austfjörðum til að kanna hve langt loðnan næði áður en farið var til norðurs á ný.

Skipið hefur þrætt landgrunnskantinn úti fyrir Austfjörðum og er nú úti af Vopnafjarðargrunni. Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir að á þessum slóðum hafi fundist loðna, líkt og í síðasta leiðangri. Stefnt sé að því að Árni klári Austfjarðamiðin áður en skipið kemur til hafnar í kvöld eða fyrramálið, áður en óveður skellur á.

Stefnt er að því að hefja nýjan leitarleiðangur á mánudag þegar veðrinu slotar. Árni mun taka þátt í honum ásamt allt að fimm veiðiskipum. Ekki er enn staðfest hver þau verða. Guðmundur reiknar með að sú leit taki fjóra daga og býst við að hún verði lokatilraunin á þessari vertíð til að finna loðnu. „Það verður metnaðarfull leit og farið þétt yfir til að ná góðri mælingu,“ segir hann.

Hafrannsóknastofnun birti í morgun bráðabirgðaniðurstöðu síðasta leiðangurs sem stóð frá 1. – 9. febrúar. Heildarmagn hrygningarloðnu þá mældist 250 þúsund tonn, samanborið við 64 þúsund í leiðangri í janúar. Það dugir þó ekki, finna þarf 150 þúsund tonn í viðbót áður en hægt verður að gefa út veiðikvóta. Það er þó háð fleiri breytum, meðal annars óvissu í mælingunum.

Í síðasta leiðangri reyndist mest loðna við Kolbeinseyjarhrygg, en leitað var frá Suðausturlandi norður með landi yfir á Grænlandssund. Í næstu viku verður farið enn lengra til vesturs yfir á Dohrn Banka.

Guðmundur telur enn of snemma að gera of miklar vonir til að loðna finnist í mælanlegu magni. „Magn loðnu jókst verulega milli fyrstu mælinga. Það er alltaf von um að eitthvað bætist í, þess vegna þykir full ástæða til að fara núna og skoða betur. Það náðist ekki að skoða öll svæði síðast. Ég er þó ekki tilbúinn að segja neitt frekar um útlitið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.