Þrjú millilandaflug um Egilsstaðaflugvöll yfir helgina

Óvenju annasamt hefur verið á Egilsstaðaflugvelli síðustu daga þar sem þrjú millilandaflug hafa farið um völlinn. Nýr tæknibúnaður á vellinum reyndist vel við þessi tilefni.

Fyrsta flugið var til Marrakess í Marokkó á miðvikudag, næsta til Katowice í Póllandi á fimmtudagsmorgunn og loks til sama staðar á föstudagsmorgunn. Fyrstu tvær vélarnar komu til baka í gærkvöldi en sú síðasta seinni partinn í dag.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla, segir að nánast fullt hafi verið í öll flugin og afgreiðsla gengið vel. Tvö fluganna hafi verið á sama og áætlunarflug innanlands en flugstöðin hafi haldið vel utan um þann fjölda fólks sem var á ferðinni og vel gengið að innrita og kalla út í vélarnar samtímis.

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar um flugin segir að talsverður fjöldi gesta hafi komið á einkabíl og ánægja verið með að nóg hafi verið af stæðum.

Starfsfólk Isavia sá um öryggis- og vopnleit, Icelandair um innritun, lögreglan um vegabréfaeftirlit og GG þjónusta um veitingar í kaffiteríu. Sigrún Björk segir alls staðar hafa tekist vel til.

Nýverið var tekin í notkun á vellinum ný vél sem skimar fyrir efnum sem ekki má hafa með í flug. Hún reyndist vel en kostnaður við hana er um sex milljónir króna.

Í næsta mánuði eru síðan á dagskrá flug til Veróna á Ítalíu og Aberdeen í Skotlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.