Þrungið loft í frystihúsinu: Starfsfólk lýsir samskiptavanda

Starfsfólk úr frystihúsi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði segir frá kerfisbundnum samskiptavanda innan fyrirtækisins í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Framkvæmdastjórinn segir málið litið alvarlegum augum.


Í umfjöllun Stundarinnar er rætt við á annan tug starfsfólks sem starfað hefur í frystihúsinu. Nær enginn vill koma fram undir nafni og ber fólk því við ótta á hvaða áhrif nafngreining kunni að hafa í jafn litlu samfélagi og Fáskrúðsfjörður er.

Frásagnir starfsfólksins lýsa kynbundinni áreitni af hálfu yfirmanna, hótunum, einelti og að samskiptavandinn sé ekki bundinn við einn einstakling.

„Ég er orðin þreytt á þessari þöggun og hvernig þetta er látið ganga yfir okkur ár eftir ár, mánuð eftir mánuð. Hvernig krakkarnir eru flokkaðir eftir kyni og eftir vaxtalagi,“ er haft eftir móður í Stundinni.

Grein Þórunnar Ólafsdóttur í Austurglugganum, þar sem hún lýsti fyrstu skrefum sínum á vinnumarkaðinum í frystihúsinu og kynferðislegum athugasemdum verkstjóra í garð unglingsstúlkna, er kveikjan að umfjöllun Stundarinnar.

Í kjölfarið voru tveir sálfræðingar kallaðir til og ræddu við starfsfólk auk þess sem Vinnueftirlitið gerði sjálfstæða athugun á vinnustaðnum.

Í samtali við Stundina segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, málið litið alvarlegum augum innan fyrirtækisins. Hegðunin verði ekki liðin enda hafi stjórnendur brugðist við með aðgerðum.

Stjórnendur fyrirtækisins kannast ekki við kvartanir undan athugasemdum verkstjóra við starfsfólk. Það ber hvorki saman við heimildir Stundarinnar né Austurfréttar.

„Ég er mjög hrædd um að það verði ekkert gert og þetta verði kæft eina ferðina enn,“ er haft eftir starfsmanni frystihússins í umfjöllun Stundarinnar.

Lars Gunnarsson, stjórnarformaður Loðnuvinnslunnar, sagði á aðalfundi fyrirtækisins í síðustu viku vonast til að aðgerðirnar yrðu til að „lægja þær óánægjuöldur sem verið hafa“ meðal starfsfólks.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.