Tíðindalaust enn af Austurlandi
Engin verkefni vegna óveðursins, sem nú gengur yfir landið, hafa enn borist inn á borð austfirskra viðbragðsaðila. Ófært er þó orðið milli staða.„Það er rólegt hér og engin tíðindi borist til okkar,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi.
Vegagerðin lokaði fyrir klukkan sjö í morgun Fjarðarheiði, Möðrudalsöræfum, Vatnsskarði og til suðurs frá Breiðdalsvík en Fagradal klukkan átta. Þæfingsfærð er á öllum fjörðum og stórhríð í Norðfirði. Á Héraði er skafrenningur og hált á vegum.
Skólahald í leik- og grunnskólum á Fljótsdalshéraði var blásið af seinni partinn í gær.
Þetta þýðir þó ekki að Austfirðir séu sloppnir því ekki er von á að veðrið komi yfir svæðið fyrr en eftir klukkan tíu. Ekki er þó búist við að vindstyrkur verði nærri sá sami og annars staðar á landinu.
Spáð er austan 20-28 m/s á Austurlandi og Austfjörðum og talsverðri úrkomu. Búist er við að veðrið gangi fyrr niður inn til landsins en út til fjarða þar sem viðvörunin gildir fram á kvöld.
Lögreglan beinir þeim tilmælum til íbúa að fara varlega og halda sig heima, sé þess kostur.
Mynd úr safni.