Tíu þúsund lítrar af olíu í prammanum
Byrjað er að reyna að koma fóðurpramma fiskeldisfyrirtækisins Laxa, sem sökk í Reyðarfirði í nótt, á flot aftur. Ráðstafanir eru gerðar til að reyna að hindra mengun frá prammanum.Þetta kemur fram í tilkynningu frá Löxum. Pramminn var á eldissvæðinu Gripalda, sem er út með sunnanverðum Reyðarfirði. Útkall barst um að pramminn væri að sökkva á níunda tímanum í gærkvöldi og sökk hann svo á fjórða tímanum í nótt.
Tildrög óhappsins eru ekki kunn, aðeins að töluvert af sjó hafi komist inn í fóðurprammann Muninn við Gripala í illviðrinu sem gekk yfir Austfirði í gær.
Búið er að tilkynna aðstæður til Fjarðabyggðar og annarra hlutaðeigandi. Varðskipið Þór kom strax á vettvang í gær og hefur aðstoðað við mengunarvarnir og björgunaraðgerðir, en verið er að reyna að koma prammanum aftur á flot, en hann fór niður á um 40 metra dýpi. Engin svartolía er um borð en tíu þúsund lítrar af díselolíu fyrir utan fóður og tækjabúnað en pramminn var mannlaus.
Eldiskvíum og löxum í þeim er ekki talin stafa hætta af atvikinu.
Mynd: Landhelgisgæslan