Orkumálinn 2024

Um 300 sýni tekin í Norrænu

Um 300 af rétt um 460 farþegum með Norrænu munu þurfa að fara í sýnatöku þegar ferjan leggst að bryggju nú í morgunsárið. Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi hvetur íbúa svæðisins til að gæta, nú sem fyrr, vel að smitvörnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem aðgerðastjórnin sendi frá sér í gærdag. Þar kemur einnig fram að sýnatakan verður framkvæmd um borð, líkt og var gert þegar ferjan kom til landsins fyrir viku síðan. Leiða má að því líkum að þeir um 160 farþegar með ferjunni sem ekki þurfa að fara í sýnatöku séu að koma beint frá Færeyjum en þær eru, auk Grænlands, einu svæðin sem sóttvarnayfirvöld hér á landi skilgreina ekki sem áhættusvæði.

Fyrir viku stóð til að senda teymi heilbrigðisstarfsfólks til Færeyja til að framkvæma sýnatöku á siglingu þaðan og til landsins. Ekki varð af því vegna veðurs í Færeyjum. Samkvæmt heimildum Austurfréttar var ákveðið að gera ekki aðra tilraun til þessa í þetta sinn, meðal annars vegna þeirrar óvissu sem uppi var um hvort hjúkrunarfræðingar yrðu í verkfalli frá og með gærdeginum. Áður hefur komið fram í fréttum að aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi telur óraunhæft að framkvæma sýnatöku við komu Norrænu til landsins, eftir að skipið hefur siglingar á sumaráætlun en þá stoppar skipið stutt við á Seyðisfirði. Fyrsta ferðin samkvæmt sumaráætlun er í næstu viku og má þá gera ráð fyrir að teymi verði send utan til að framkvæma sýnatökur um borð á leiðinni til landsins.

Hvatt til virkra smitvarna
Aðgerðastjórn leggur áherslu á að íbúar og aðrir fari að öllu með gát.

„Allir þeir sem þurfa í sýnatöku fá leiðbeiningar um það hvernig skuli bera sig að hér á landi meðan niðurstöðu er beðið. Í ljósi þess þó hversu margir koma til fjórðungsins á morgun og þess að smit hafa nýverið komið upp hér innanlands, þykir aðgerðastjórn rétt að árétta að við íbúar gætum áfram að eigin smitvörnum, hugum að tveggja metra reglunni og handþvotti sérstaklega. Þá er sprittnotkun á snertifleti mikilvæg sem fyrr, svo sem hurðarhúna og borð í verslunum og veitingastöðum. Slíkar varúðarráðstafanir eru einnig mikilvægar á tjaldsvæðum þar sem tjaldbúar og tjaldverðir gæti og að leiðbeinandi fjögurra metra fjarlægðarreglu milli tjaldstæða,“ segir í tilkynningunni.

Leiðbeiningar Landlæknis gera ekki ráð fyrir því að farþegar sem koma til landsins sæti sóttkví meðan beðið er niðurstöðu skimunar. Þar eru farþegar þó hvattir til að gæta varúðar og lágmarka samskipti sín við aðra. „Einstaklingar eru beðnir að vera sem minnst á ferðinni og takmarka notkun á almenningssamgöngum ef hægt er (t.d. betra að nota leigubíl eða bílaleigubíl heldur en fara í rútu eða innanlandsflug). Þvo hendur og/eða nota handspritt, forðast að snerta sameiginlega snertifleti, varast að snerta andlit (augu, munn og nef) með óþvegnum höndum, og takmarka
nánd við aðra (tryggja 2ja metra nándarmörk eins og kostur er).“

Áhersla yfirvalda er því að varúð og virkar smitvarnir, eða eins og segir í tilkynningu aðgerðastjórnar, „Verum varkár áfram og gætum þannig að eigin öryggi og annarra."

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.