Um 90% af Fljótsdalshreppi á leið undir þjóðgarð og þjóðlendu
„Þetta er náttúrulega algerlega óboðlegt og við mótmælum þessum áformum harðlega,“ segir Helgi Gíslason sveitarstjóri Fljótsdalshrepps. Ef frumvarp um Hálendisþjóðgarð verður að veruleika í óbreyttri mynd stefnir í að um 90% af landi hreppsins fari undir þjóðgarðinn og ríkið.Sveitarstjórn Fljótdalshrepps hefur sent frá sér umsögn sína og álit á framkomnu frumvarpi um Hálendisþjóðgarðinn. Þar kemur fram að sveitarstjórnin leggst eindregið gegn því að frumvarpið verði samþykkt.
Helgi Gíslason segir að þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður hafi 55% af landi hreppsins farið undir hann.
„Í núverandi frumvarpi að Hálendisþjóðgarði fer þetta hlutfall lands sem við missum upp í 86%,“ segir Helgi. „Svo hefur Óbyggðanefnd, sá gamli draugur, vaknað til lífsins og gerir til viðbótar kröfur um að bæta 57 ferkílómetrum af okkar landi undir þjóðlendur. Þar með yrðu 90% af landinu færð í hendur ríkinu.“
Fram kemur í máli Helga að sveitarstjórnin hafni alfarið þessari kröfu Óbyggðanefndar enda hafi verið samið um þessar þjóðlendur fyrir löngu síðan.“
Í áliti Fljótsdalshrepps segir einnig að auk þessa yrðu Rani og öll Vesturöræfi Í sveitarfélaginu Múlaþingi hluti af Hálendisþjóðgarði en á þessum afréttum hafa bændur í norðurbyggð i Fljótsdal átt upprekstrarrétt um aldir og þar á Fljótsdalshreppur gangnakofa.
Að mati sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps er með frumvarpinu gengið alltof Iangt i að færa heimildir til að skipuleggja og ákvarða nýtingu lands frá sveitarfélögum og heimamönnum viðkomandi landsvæða til ríkisvaldsins og þannig gengið á afdráttarlausan rétt íbúanna til að koma að mótun síns nærsamfélags.
Þá segir einnig m.a. að í öllum tilvikum á það að vera háð samþykki viðkomandi sveitarstjórnar að fella landsvæði innan sveitarfélags undir þjóðgarð. Ekki hafa komið fram rök fyrir því að vikið sé frá því fyrirkomulagi við stofnun Hálendisþjóðgarðs. Slíkt fyrirkomulag sé hinsvegar fyllilega eðlilegt miðað við stöðu sveitarfélaga i stjórnskipun Íslands.