Umsóknum um hreindýraveiðileyfi fækkar
Dregið verður um leyfi til veiða á hreindýrum næsta laugardag. Bæði umsóknir um leyfi og veiðikvótinn eru minni en síðustu ár.Í ár er að heimilt að veiða 1325 dýr, 805 kýr og 520 tarfa en heildarkvótinn síðustu tvö ár var um 1450 dýr.
Flest leyfi eru á svæði 2, milli Jökulsár í Fljótsdal/Lagarfljóts og Jökulsár á Dal, 349 talsins. Þar hefur verið leyft að veiða yfir 400 dýr síðustu tvö ár. Að sama skapi fjölgar leyfum á svæði 7, Djúpavogshreppi, og eru þar 216 í ár.
Frestur til að sækja um veiðileyfi rann út í byrjun vikunnar. Alls bárust 2900 umsóknir en þau hafa verið yfir 3000, jafnvel yfir 4000, í hvert skipti frá árinu 2007.
Veiðikvótinn var auglýstur óvenju seint á þessu ári. Í svari umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við fyrirspurn Austurfréttar um hvað hafi valdið töfunum segir að óheppilegt hafi verið hve mikill dráttur hafi orðið á.
Meðal ástæðna er skoðun á tilmælum Fagráðs um velferð dýra hjá Matvælastofnun um fyrirkomulag veiðitímans með tilliti til afkomu kálfa. Niðurstaða athugunarinnar varð sú að þeim tilmælum er beint til veiðimanna fyrstu tvær vikur veiðitímans að veiða eingöngu geldar kýr svo draga megi úr áhrifum veiðanna á kálfa.
Veiðitímabilið hefst 15. júlí. Fyrstu vikurnar er aðeins heimilt að veiða tarfa og er skilyrt að þeir séu ekki í fylgd með kúm né veiðarnar trufli kýr og kálfa í sumarbeit. Veiðitímabili tarfanna lýkur 15. september og kúnna fimm dögum síðar. Frá 1. – 20. nóvember er þó heimilt að veiða kýr á svæðum 8 og 9, sem eru í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Dregið verður um leyfin á laugardaginn í fyrirlestrasal Menntaskólans á Egilsstöðum. Samtímis verður útdrátturinn sendur út á heimasíðu Umhverfisstofnunar, eins og tíðkast hefur síðustu ár.
Vígrreifur veiðimaður með bráð sína. Mynd úr safni.