Úthlutun Uppbyggingarsjóðs frestað vegna veðurs
Ákveðið hefur verið að fresta úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands, sem fara átti fram á Eskifirði seinni partinn í dag, vegna slæmrar veðurspár.Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun fyrir Austurland og Austfirði sem gildir frá klukkan 18 í kvöld til átta í fyrramálið.
Spáð er austan og norðaustan 13-20 m/s og mikilli snjókomu, en síðar slyddu eða rigningu nærri sjávarmáli. Færð á vegum spillist líklega, einkum á fjallvegum.
Af þessum orsökum var í morgun ákveðið að fresta úthlutuninni sem fara átti fram í Randulffs-sjóhúsi klukkan 16:30 í dag.
Umsóknarfrestur í sjóðinn rann út í byrjun árs og barst metfjöldi umsókna. Sótt var um styrki fyrir 126 verkefni, þarf af var 71 umsókn til verkefna á sviði menningarmála og 55 umsóknir um verkefni í nýsköpun og atvinnuþróun.
Heildarkostnaður verkefna var 560 milljónir en sótt var um styrki fyrir 193 milljónir.