Varað við hálku og hálkublettum víða um Austurland
Hálkuviðvaranir hafa þegar verið gefnar út af hálfu Vegagerðarinnar á fjölda vega inn til landsins og ekki síður á fjallvegum fjórðungsins. Í það mun bæta í nótt enda gerir spá ráð fyrir snjókomu um tíma og frosti víðast hvar.
Hálka eða hálkublettir finnast nú þegar á Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði, Breiðdalsheiði, Vatnsskarði og Fagradal auk þess sem fjallvegurinn um Hellisheiði eystri er orðin þungfær. Þá er og hálka á veginum inn í Mjóafjörð.
Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir að hitastig fari niður fyrir frostmark víða eftir miðnætti í kvöld og alveg niður í tveggja stiga frost í byggð á stöku stöðum í nótt svo gera má ráð fyrir meiri hálku víða en þegar er orðið. Að sama skapi á að snjóa nokkuð á Úthéraði og við Vopna- og Borgarfjörð um tíma í nótt.
Helgarspáin gerir ráð fyrir tiltölulega köldu veðri alls staðar á morgun laugardag og hitastig nær hvergi mikið yfir þrjú til fjögur stigin. Það bætir aðeins í hitann á sunnudag þegar hámarkshitatölur verða kringum fimm stigin á láglendi en því fylgir töluverð rigning lunga dagsins.
Skjáskot úr vefmyndavél Vegagerðarinnar í Vatnsskarði klukkan 14.30 í dag. Hálka víða og aðeins farið að fenna.