Varúðarráðstafanir við heimsóknir á hjúkrunarheimili

Sóttvarnalæknir, í gegnum rekstraraðila hjúkrunarheimila um land allt, hefur gefið út leiðbeiningar til þeirra sem hyggja á heimsóknir til ættingja og vina sem dvelja á hjúkrunarheimilum vegna útbreiðslu kórónaveirunnar Covid-19.

Íbúar hjúkrunarheimila eru flestir aldraðir og / eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma. Þeir eru því í sérstökum áhættuhóp á að veikjast alvarlega af kórónaveirunni.

Þeir sem eru með kvefeinkenni, flensulík einkenni eða hafa ferðast nýlega til skilgreindra áhættusvæða samkvæmt upplýsingum á vef Landlæknis eru beðnir um að gæta varúðar og koma ekki í heimsóknir á hjúkrunarheimili.

Mikilvægt er að þeir sem eru frískir, hafa ekki verið á skilgreindum áhættusvæðum og hafa því ekki ástæðu til að ætla að þeir hafi smitast af veirunni hafi eftirfarandi í huga:

Handþvottur er mikilvægasta ráðið til að forðast smit og einnig er mikilvægt að nota handspritt. Þetta skal ávallt hafa í huga þegar komið er inn á heimilin.

Að forðast alla líkamlega snertingu eins og hægt er svo sem handabönd, faðmlög og kossa við íbúa.

Að forðast að koma við snertifleti í almennum rýmum svo sem handriði og hurðarhúna.

Nánar er vísað á leiðbeiningar á vef Landlæknisembættisins því staða mála og leiðbeiningar þeim tengdar geta breyst dag frá degi.

Fjögur hjúkrunarheimili eru rekin á Austurlandi: Sundabúð á Vopnafirði, Dyngja á Egilsstöðum, Fossahlíð á Seyðisfirði, Hulduhlíð á Eskifirði og Uppsalir á Fáskrúðsfirði auk hjúkrunardeildar í Neskaupstað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar