Skip to main content

Vegagerðin: Grjót sem var losað, ekki grjót sem hrundi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. des 2011 11:09Uppfært 08. jan 2016 19:22

oddsskardagong-fesid.jpgVegagerðin hafnar því að mynd, sem gengið hefur á samskiptavefnum Facebook undanfarna daga, af grjóti sem á að hafa hrunið úr Oddsskarðsgöngum í síðustu viku hafi í raun hrunið. Verktaki sem hafi verið að hreinsa í göngunum hafi losað það.

 

Í frétt á vef Vegagerðarinnar segir að smátt grjót hafi hrunið úr gangavegg í göngunum um miðja síðustu viku og niður á veginn. Snjómokstursverktaki hafi komið að steinunum í morgunferðinni og í framhaldinu hafi verið að hreina laust grjót úr gangaveggjunum. Stóri steinninn hafi verið losaður frá eins og aðrir og skilinn eftir úti í vegkanti á meðan verkið var klárað.

Í fréttinni segir að vegfarendur hafi verið aðvaraðir, svæðið verið merkt sem vinnusvæði og umferðartafir vegna vinnunnar verið auglýstar.

Vegfarendur sem leið áttu um göngin á þessum tíma hafna því að svæðið hafi verið merkt sem vinnusvæði.