Vetur og sumar frusu saman á Jökuldal

Almennt virðist hafa verið svo síðustu nótt að sumar og vetur hafi ekki frosið saman á láglendi á Austurlandi. Næturfrost mældist inn til dala og upp til fjalla.


Þetta gefur lausleg athugun Austurfréttar á tölum frá austfirskum veðurstöðvum til kynna en samkvæmt þjóðtrúnni veit á gott þegar sumar og vetur frjósa saman, þ.e. næturfrost mælist aðfaranótt sumardagsins fyrsta.


Samkvæmt athugun Austurfréttar er eini mælirinn á láglendi sem sýndi frost í nótt á Brú á Jökuldal, frá því um miðnætti og fram til um klukkan tíu í morgun.

Frost mældist einnig á Vatnsskarpi, Vopnafjarðarheiði, í Möðrudal, Eyjabökkum, Jökuldal og Breiðdalsheiði.

Ekkert frost sést á mælum eins og á Kollaleiru, Dalatanga, Fáskrúðsfirði, Norðfirði, Egilsstöðum, Hallormsstað, Teigarhorni, Kambanesi eða Skjaldþingsstöðum.

Veðurfræðingurinn Trausti Jónsson bendir á bloggsíðu sinni á að ekki víst að nútímafólk skilgreini gott sumar líkt og gert var áður fyrr.

Gott sumar var mælt í mjólkurmagni kúa og áa. Ekki voru til staðar hitamælar heldur áttu menn að leggja út grunnan disk með vatni og höfðu vetur og sumar frosið saman ef á því var þykkt skæni.

Skrifar Trausti að „alloft hafi verið vit í gömlum veðurspádómum“ en þessi verði að teljast „fullkomin della.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.