„Við viljum gera bæinn okkar betri og öruggari“
Slysavarnardeildin Hafdís á Fáskrúðsfirði setti á dögunum upp kistur með björgunarvestum á tveimur stöðum við bryggjur í bænum. Jóhanna Þorsteinsdóttir er í stjórn slysavarnardeildarinnar og segir vestin vera lið í því að gera bæinn betri og öruggari sem sé markmið deildarinnar.
Jóhanna segir uppsetningu björgunarvestana hafa mikið forvarnargildi. „Þetta verkefni er búið að vera í bígerð hjá okkur í mörg ár. Við viljum hafa björgunarvesti á bryggjunum svo bæjarbúar geti farið með börnin sín og barnabörn niður á bryggju að dorga og verið í vesti. Þetta er það sem við viljum vinna að, að gera bæinn öruggari, betri og skemmtilegri.“
Verkefnið hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma en slysavarnarkonur á Fáskrúðsfirði vilja leggja áherslu á að gera vel. „Við keyptum reyndar vestin fyrir nokkrum árum síðan og höfum lánað þau til dæmis á leikjanámskeið hjá Leikni og svoleiðis. En við vorum svo ákveðnar í því að gera þetta vel. Við vildum ekki bara setja þetta í einhverjar kistur þannig þetta myndi svo kannski fjúka. Við vorum þess vegna ákveðnar í því að setja þetta ekki niður á bryggju fyrr en við værum komnar með góða geymslu. Við fengum hugmyndina annarsstaðar frá, við vorum búnar að sjá svipuð verkefni hjá öðrum slysavarnardeildum og vorum búnar að skoða kosti og galla af því að við vildum gera þetta á sem fullkomnastann hátt,“ segir Jóhanna.
Jóhanna vonast til þess að bæjarbúar taki vel í hugmyndina; noti vestin, skili þeim aftur og gangi vel um geymslurnar. „Þetta er í rauninni tilraunaverkefni hjá okkur. Við keyptum ekkert rosalega mörg vesti til að byrja með en ef þetta gengur vel þá bætum við í kistuna en ef þetta gengur illa og vestunum verður stolið eða þau skemmd þá nær þetta kannski ekki lengra.“
Jóhanna segir slysavarnardeildina Hafdísi þó ekki eina eiga heiðurinn af því að vestin séu komin upp. „Það hafa allir laggst á eitt með að hjálpa okkur við þetta. Þau fyrirtæki sem við höfum skipt við hafa mörg styrkt okkur með einhverjum hætti. Strákarnir í Loðnuvinnslunni festu þetta fyrir okkur og svo framvegis. Við áttum hugmyndina og ýttum þessu af stað en svo hafa margir hjálpað okkur að gera þetta að veruleika.“
Björgunarvestin eru ekki það eina sem slysavarnarkonur hafa látið af hendi rakna til samfélagsins á Fáskrúðsfirði í vor. „Við gáfum Fjarðabyggð hjartastuðtæki í sjómannadagskaffinu um daginn líka. Við lítum svo á að við höfum verið að loka hringnum í því verkefni. Við byrjuðum á því að gefa íþróttahúsinu hjartastuðtæki fyrir nokkrum árum, svo gáfum við sundlauginni, þá skólamiðstöðinni og nú félagsheimilinu. Þannig að við erum búnar að gefa á þessa helstu staði þar sem bæjarbúar safnast saman. Við viljum gera bæinn okkar betri og öruggari fyrir bæjarbúa, það er okkar markmið,“ segir Jóhanna að lokum.