Viðurkenning fyrir náttúruvernd á Víknaslóðum

Stjórn Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) veitti Ferðafélagi Fljótsdalshérað og Ferðamálahópi Borgarfjarðar nýverið umhverfisviðurkenningu samtakanna. Viðurkenningin er veitt fyrir að setja umhverfi og náttúru Víknaslóða í forgang með landvörslu og úttekt á svæðinu með verndarsjónarmið í huga.

Í umsögn stjórnar NAUST segir að Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og Ferðamálahópur Borgarfjarðar eystri hafi um árabil unnið saman að göngusvæðinu Víknaslóðir sem liggur milli Héraðsflóa og Seyðisfjarðar. Ferðafélagið rekur þar þrjá gönguskála.

Svæðið er eitt vinsælasta göngusvæði Austurlands og talið eitt af best skipulögðu göngusvæðum landsins. 120 kílómetrar af leiðunum eru stikaðir og hefur verið gefið út vandað og ítarlegt göngukort af svæðinu.

Þá segir að verkefnið sé sannarlega verið vel að viðurkenningunni komið ekki síst í ljósi mikillar og óeigingjarnar sjálfboðavinnu á ýmsum stigum máls.

Í tilkynningu er haft eftir Ingibjörgu Jónsdóttur, verkefnastjóra hjá Ferðafélaginu, að ákveðin óvissa hafi verið síðustu ár um ástand gönguleiðanna, merkingar og stikur. Ferðafélagið og Ferðamálahópurinn hafi lengi hugsað til landvörslu, en þar sem svæðið er ekki friðlýst var ljóst að ekki fengist landvörður frá því opinbera að sinna svæðinu.

Árið 2018 ákváðu ferðafélagið og ferðamálahópurinn að ráða sjálf landvörð í fjórar vikur á Víknaslóðir. Hlutverk hans var að gera úttekt á gönguleiðunum, greina ástand náttúrunnar og huga að lagfæringum á raski þar sem þess var þörf. Landvörður tók líka viðtöl við landeigendur til að kanna viðhorf þeirra til ferðaþjónustu sem er stunduð á svæðinu auk þess að tala við ferðamenn og leiðsögumenn til að fá ábendingar um umbætur.

Sótt var um styrki í ýmsa sjóði og til fyrirtækja og stofnana sem lögðu verkefninu lið. Stærstu styrktaraðilar voru Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Íslenskir fjallaleiðsögumenn, einn helsti ferðaskipuleggjandinn á Víknaslóðum.

Haft er eftir Ingibjörgu að síðasta haust hafi landvörður skilað greinargóðri skýrslu um ástand svæðisins. Þar kom meðal annars fram að náttúran er farin að láta víða á sjá og merkingum töluvert ábótavant.

Ferðafélagið og ferðamálahópurinn brettu því upp ermar og hófu fjármögnun fyrir sumarið 2019 svo hægt væri að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til að bæta ástand gönguleiðanna og ráðast í fyrirbyggjandi verndandi aðgerðir. Nú er verkefnaáætlun klár og verið að leggja lokahönd á fjármögnun, en gert er ráð fyrir að landvörður verði á svæðinu í 8 vikur í sumar, sá sami og í fyrra.

Það verður, líkt og í fyrra, Hörn Heiðarsdóttur, en hún er vön landvörslu úr Vatnajökulsþjóðgarði. Hún mun halda áfram með úttekt á gönguleiðunum, setja niður stikur, nýjar merkingar og göngubrýr miðað við niðurstöður úttektar 2018.

Þá verða gönguleiðir færðar til á minnsta kosti tveimur stöðum til að hvíla náttúruna. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur aftur til veglegan styrk í þetta verkefni sem og sveitarfélagið Fljótsdalshérað, en nokkur áhersla verður einnig lögð á Stórurð í sumar. Brothættar byggðir hafa einnig styrkt verkefnið sem og Borgarfjarðarhreppur og svo ýmis fyrirtæki einnig.

Frá veitingu verðlaunanna á Gistihúsinu á Egilsstöðum. Frá vinstri: Andrés Skúlason formaður NAUST, Þórhallur Þorsteinsson formaður Ferðamálafélags Fljótsdalshéraðs, Ingibjörg Jónsdóttir verkefnastjóri og Þórveig Jóhannsdóttir úr stjórn NAUST.  Hafþór Snjólfur Helgason, formaður Ferðamálahópsins, gat ekki verið viðstaddur afhendinguna. Mynd: NAUST.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar