Vígahnötturinn sást víða af Austfjörðum
Vígahnöttur sem íbúar á Breiðdalsvík urðu varir við í fyrradag virðist hafa sést víða á Austfjörðum, meðal annars Höfn og Reyðarfirði.Eins og Austurfrétt greindi frá í gær sáu tveir íbúar á Breiðdalsvík blágrænt ljós á himni í stutta stund klukkan kortér yfir þrjú á þriðjudag. Ljósið var lágt yfir bænum og fór á mikilli ferð í áttina að fjallinu.
Í athugasemdum við fréttina hafa bæst við tvær frásagnir í viðbót, annars vegar úr Breiðdal, hins vegar frá Hornafirði.
Þorsteinn Sæmundsson, stjarneðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands, safnar frásögnum af vígahnöttum yfir landinu og er listi hans aðgengilegur í gegnum vefsvæði almanaks skólans. Þar er einnig að finna frásögn sjónarvottar sem var á ferð í Reyðarfirði á þriðjudag.
Í samantekt Þorsteins er talað um blágrænt rafsuðuljós sem hafi farið nánast lárétt. Það hafi sést í um fimm sekúndur á vesturhimni og stefnt í norður. Hnötturinn hafi verið mjög bjartur fyrst hann sást í dagbirtu.
Þetta er annað dæmið um vígahnött yfir Breiðdal á listanum. Það fyrra er skráð 12. desember árið 1994 um klukkan hálf þrjú. Sá var ljósgrænn eða bláleitur með hvítan hala og sprakk á himni séð frá Breiðdalsvík. Sá sást einnig frá Eiðum.
Talið er líklegast að vígahnötturinn á þriðjudag hafi verið lofsteinn sem kom inn í gufuhvolf jarðar áður en hann brann upp. Tekið á móti frásögnum af vígahnöttum á himni hjá Veðurstofu Íslands.