
„Viljum ekki skipta aftur um sorphirðuverktaka á miðjum vetri“
Sorpþjónusta í Múlaþingi fór úr skorðum í haust samhliða því sem skipt var um sorphirðuverktaka í kjölfar útboðs. Íbúar hafa lýst óánægju með tafirnar en sveitarfélagið segir að sorphirðan sé nú komin í rétt horf. Hækkun gjalda, sem er tilkomin vegna nýrra laga, hefur einnig ergt íbúa.Í kjölfar útboðs síðasta sumar var samið við Kubb um sorphirðuna og átti fyrirtækið að taka við henni 1. nóvember. En samningar töfðust, að miklu leyti vegna kærumála, þannig að fullnaðarsamningar voru ekki gerðir fyrr en 1. desember. Þess vegna urðu tafir á sorphirðu, einkum til sveita.
„Snjóboltinn fór að rúlla í nóvember og við áttum í miklum vandræðum með að koma þjónustunni aftur í eðlilegt horf,“ sagði Stefán Aspar Stefánsson, verkefnastjóri umhverfismála hjá Múlaþingi, á íbúafundi um sorphirðuna í gær. Hann bendir á að undirbúningsferlið hafi verið ófullnægjandi vegna lagabreytinga og kærumála sem töfðu samninga.
Útboðsferli og lagabreytingar urðu að flöskuhálsi
Sveitarfélagið átti í erfiðleikum með að bjóða þjónustuna út á réttum tíma. „Við vorum ekki tilbúin með útboðsgögn þegar samningurinn rann út, meðal annars vegna lagabreytinga sem tóku gildi árið 2023 en líka starfsmannabreytinga,“ útskýrir Stefán.
Í millitíðinni var gerður skammtímasamningur við fyrri verktaka, en sá samningur var kærður til kærunefndar útboðsmála. Niðurstaðan varð takmörk á gildistíma hans. Það leiddi til þess að minni tími varð fyrir útboðið en ella. Niðurstöður þess voru líka kærðar sem tafði skiptin. Það leiddi til þess að nýr verktaki, Kubbur, fékk mjög stuttan tíma til að undirbúa sig fyrir verkefnið. „Við vitum núna að það er ekki skynsamlegt að skipta um sorpverktaka um miðjan vetur en áttum ekki annarra kosta völ,“ segir Stefán.
Hvað fór úrskeiðis í sorphirðunni?
Þegar Kubbur tók við sorphirðu í nóvember með bráðabirgðasamningi skapaðist mikil óvissa. Ekki ekki gafst tími til að þjálfa starfsfólk nógu vel né fá réttan tækjabúnað, auk þess sem óveður tafði enn frekar fyrir. Mest röskun varð í dreifbýli, en einnig urðu seinkanir á ákveðnum svæðum í þéttbýli.
„Við höfðum ekki nægilega langan tíma til að undirbúa okkur og það var mikill skortur á starfsfólki og tækjum. Þetta skapaði tafir sem við höfum nú náð að vinna upp,“ segir Marinó Stefánsson, svæðisstjóri hjá Kubb.
Sorp var ekki sótt á réttum tímum, sem olli óánægju íbúa. „Það var sérstaklega slæmt í dreifbýli, þar sem íbúar urðu að geyma sorp sitt lengur en venjulega, en við höfum náð að koma þjónustunni aftur í lag,“ segir Marinó.
Af hverju var sorpinu sturtað á jörðina?
Í janúar birtust myndir af sorphirðusvæðinu á Egilsstöðum þar sem búið var að sturta lífrænum úrgangi úr bíl á jörðina. Stefán Aspar útskýrði að þetta hefði verið gert á neðri hluta svæðisins, sem sé vinnusvæði verktaka og lokað almenningi. Þetta sé gert því færa þurfi úrganginn úr bílum í gám sem sendur sé til Moltu ehf. í Eyjafirði. Sorpinu hafi verið mokað upp í hann. Slíkt verklag sé notað víðar.
Hækkun sorpgjalda: „Gjöldin hafa ekki staðið undir kostnaði“
Íbúar hafa orðið varir við töluverðar hækkanir á sorpgjöldum. Undanfarin ár hafa gjöldin í Múlaþingi verið með þeim lægstu á landinu, en nú hefur þurft að hækka þau verulega til að mæta auknum kostnaði. Þá breyttust lög þannig að þess er krafist að kostnaður við sorphirðu endurspegli raunkostnað. Sveitarfélögin geta þar með ekki niðurgreitt þau. Á sama tíma hefur kostnaðurinn aukist.
„Gjöldin hafa ekki staðið undir kostnaði í nokkur ár. Þau voru lengi um 35.000 krónur en voru hækkuð í 51.000 í fyrra. Í dag eru þau komin í 74.200 krónur,“ útskýrði Stefán Aspar en bætti við að gjöldin í Múlaþingi hefðu í fyrra verið undir landsmeðaltali.
Nýjar reglur um flokkun og hirðu
Til að bæta úrgangsstjórnun og auka endurvinnslu verða gerðar nokkrar breytingar á sorpþjónustu sveitarfélagsins. Sveigjanleg sorpgjöld verða tekin upp, þannig að íbúar geta ráðið tunnustærð og þar með kostnaðinum. Frekari breytingar verða í vor. Til dæmis að íbúar geti sótt um heimagarðgerð og skilað lífrænu tunnunni.
Einnig verða tekin upp föst gjöld fyrir fyrirtæki og stofnanir, sem áður höfðu aðgang að söfnunarstöðvum án þess að greiða fyrir það. „Við viljum að gjöldin dreifist með sanngjarni hætti og að þeir sem nýta þjónustuna mest greiði fyrir hana,“ segir Stefán.
Hægt að fylgjast með sorphirðubílnum í rauntíma
Til að bæta upplýsingagjöf og tryggja betra eftirlit verða sorphirðubílar búnir ökuritum þannig að starfsfólk sveitarfélagsins geta fylgst með þeim í rauntíma. Til skoðunar er að opna íbúum aðgengi að þessum upplýsingum. „Ef íbúi hringir og segist ekki hafa fengið sorpið sitt tekið, getum við nú séð nákvæmlega hvort bíllinn hafi farið um viðkomandi svæði eða ekki,“ útskýrir Stefán.
Framtíðin: Aukið samstarf á Austurlandi
Í lok fundarins kom fram að Múlaþing hyggst leita leiða til að auka samstarf við önnur sveitarfélög á Austurlandi í úrgangsmálum. „Það er í bígerð svæðisáætlun fyrir allt Austurland sem gæti leitt til hagræðingar,“ segir Stefán. Hann bendir á að markmiðið sé að veita góða þjónustu og hámarka endurvinnslu sem hagkvæmastan hátt.
„Það borgar sig að flokka vel“
Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri, hvatti íbúa til að flokka vel og nýta grenndargáma og söfnunarstöðvar í stað þess að setja allt í blandaðan úrgang. „Við þökkum íbúum fyrir þolinmæðina í vetur á meðan við vorum að vinna okkur út úr þessum vandræðum. Nú er þjónustan komin í eðlilegt horf og við erum bjartsýn á framhaldið,“ sagði hún í lok fundar.
Stefán Aspar ítrekaði að sveitarfélagið legði áherslu á góð samskipti við íbúa og mikilvægt sé að ábendingum um úrbætur sé komið beint til skila. „Það er mikilvægt fyrir sveitarfélög að fá ábendingar frá íbúum þannig hægt sé að fylgja þeim eftir við verktaka. Við hvetjum íbúa til að nota ábendingagátt sveitarfélagsins til þess.“