
Löggæslumyndavélar komnar upp í Fellabæ
Tvær löggæslumyndavélar eru komnar upp norðanmegin við bæjarmörk Fellabæjar en þar er um að ræða þriðja staðinn þar sem lögreglan kemur upp slíkum vélum austanlands.
Um mánuður er liðinn síðan þær voru settar upp við Hringveginn við bæjarmörk Fellabæjar rétt yfir neðan bækistöðvar Vegagerðarinnar þar í bæ. Töluverða athygli vakti síðasta haust þegar lögreglan óskaði eftir fjárframlagi frá sveitarfélaginu Múlaþingi til kaupa og uppsetningar á umræddum vélum. Á það var fallist að hluta til þó kostnaður við slíkt eigi að heyra undir ríkið en ekki sveitarfélög landsins.
Þess misskilnings hefur gætt að þarna sé um hraðamyndavélar að ræða en Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn, staðfestir að svo sé ekki. Einungis sé um upptökur að ræða sem geymdar eru hjá Ríkislögreglustjóra og myndefnið aðeins notað ef talið er að það nýtist við rannsókn tiltekinna mála sem lögregla vinnur að.
Vélarnar umræddu ofan á upplýsingaskilti Vegagerðarinnar um færð og hitastig á Möðrudalsheiðinni. Mynd AE