
Staðfest að rófustappan var skaðvaldurinn
Niðurstöður greiningar á sýnum sanna að uppruni matarsýkingar sem kom upp á þorrablóti í Brúarási um helgina átti uppruna sinn í rófustöppu. Ekki er þó hvar í keðjunni pottur var brotinn þannig að stappan skemmdist.„Það vaknaði strax ákveðinn grunur um að þetta hefði verið rófustappan og nú hefur það verið staðfest,“ segir Lára Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST).
Í stöppunni fundust jarðvegsbakteríur sem framleiða gró og geta valdið sýkingum. Gróin eru hitaþolin, sem þýðir að þau lifa af hitun. Lára segir að þess vegna sé mikilvægt að kæla matvæli hratt eftir eldun, halda þeim köldum og halda þeim yfir 60 gráðu heitum þegar þau eru hituð upp aftur.
Ekkert athugavert fundist í verklagi
Enn hefur ekki tekist að leiða í ljós hvar í ferlinu eitthvað fór úrskeiðis eða nokkuð annað komið fram sem eftirlitið hafi athugasemdir við.
„Það er ljóst að eitthvað fór úrskeiðis, hvort sem það var kælingin eða upphitunin. En það hefur ekkert komið fram í okkar samtölum, hvorki við þorrablótsnefndin né veitingaaðilann, sem við höfum getað bent á.
Veitingaaðilinn gerði stöppuna í fullbúnu veitingaeldhúsi. Það er síðan unnið áfram með hana í skólaeldhúsinu í Brúarási. Aðstæður þar eru mjög góðar af þorrablóti að vera. Öll leyfi voru í lagi.“
Litlar líkur á fylgikvillum
Fram kemur í máli Láru að grunur hafi strax beinst að rófustöppunni. Einstaklingar af þorrablótinu, sem Austurfrétt ræddi við á mánudag, töluðu strax um stöppuna og að hún hefði hreinlega þótt vond. „Við heyrðum það líka í okkar samtölum. Sumir fengu sér bara smá af henni og létu hana síðan eiga sig. En við höfum líka fólk sem borðaði rófustöppuna og kenndi sér einskis meins.“
Blótið var haldið á laugardagskvöld og á sunnudag, um 10-12 tímum eftir borðhald, vaknaði grunur um veikindi. Það var tilkynnt til HAUST á sunnudag sem hóf strax rakningu. Heilbrigðisstofnun Austurlands kallaði eftir að fólk léti vita um veikindi til að geta safnað upplýsingum. Til þessa hafa 75 einstaklingar af um 260 manna blótinu tilkynnt veikindi. Ekki er þó vitað til að nein þeirra hafi verið alvarleg, það er þurft aðstoð læknis.
Lára segir sjúkdómseinkennin passa vel við þau áhrif, sem bakteríurnar sem fundust, geta valdið. Frekari fylgikvillar af veikindum af þeirra völdum eru afar sjaldgæfir. Algengast er að fljótt jafni sig fljótt og vel eftir þau, eins og virðist reyndin í þessu tilviki.