Viljum gera gott mót fyrir alla

Landsmót UMFÍ 50 ára og eldri verður haldið í Neskaupstað dagana 28. – 30. júní. Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri mótsins, segir mikinn áhuga fyrir mótinu í Neskaupsstað og gaman að vinna að undirbúningi með Norðfirðingum.

Íbúafundur var haldinn á dögunum í Neskaupsstað til að kynna mótið og að sögn Ómars Braga gekk hann vel. „Þetta var góður fundur, það er rosalega flott fólk í Neskaupsstað sem er að vinna að þessu með okkur. Það var vel mætt, ég hef haldið marga svona fundi í gegnum tíðina en það var ótrúlega vel mætt í Neskaupsstað og það er mikill áhugi fyrir mótinu sem er mjög gaman.“

Skráning hófst á landsmótið í gær en Ómar Bragi gerir ráð fyrir að meira skrið komist á hana í júní. „Skráningin fer nú ekki mjög hratt af stað enda hefur hún ekki gert það, hún hefur yfirleitt ekki komist á fullt skrið fyrr en nær dregur, við þekkjum það. En fólk er farið að hringja og skoða og velta þessu fyrir sér,“ segir Ómar Bragi.

Ómar Bragi mælir með þátttöku í mótinu og lofar góðri skemmtun. „Þessi mót eru alveg yndislega skemmtileg. Það eru forréttindi að vera með þessum hópi á þessum mótum. Þetta hefur verið þannig að eldra fólk er meira með, það er að segja mótið er fyrir 50 ára og eldri en 65 ára og yfir hafa verið fjölmenasti hópurinn. Við erum að reyna höfða meira til yngri hópsins líka, 50-65 ára, koma inn með greinar sem henta þeim hópi betur. Við viljum bara gera gott mót fyrir alla sem mæta. Það eru auðvitað forréttindi að vera 75 ára og taka þátt í íþróttamóti, það eru ekki allir sem hafa möguleika á því. Svo er þetta líka mikil skemmtun, að koma saman, syngja og njóta þess að vera til og lifa lífinu. Við erum líka að horfa á þetta svoleiðis.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.