Vill fagna 120 ára afmæli Lagarfljótsbrúar með einum eða öðrum hætti
Í janúar næstkomandi verða 120 ár síðan að Lagarfljótið var fyrst brúað með Lagarfljótsbrú sem í upphafi var einföld trébrú. Einstaklingur hefur farið þess á leit við Múlaþing að þessum áfanga verði fagnað með einum eða öðrum hætti.
Samkvæmt samgönguáætlun ríkisins er ætlunin að byggja nýja Lagarfljótsbrú á árabilinu 2034 til 2038 og vart seinna vænna því núverandi brú er þegar að nálgast sjötugsaldurinn og stendur enn að hluta á undirstöðum upprunalegu brúarinnar frá 1905. Til að setja það í samhengi er formlegur hönnunarlíftími brúa sem reistar eru í dag með allri þeirri nútímatækni og vitneskju sem forfeðurnir höfðu engan aðgang að slétt hundrað ár.
Benedikt Vilhjálmsson Warén vill gera afmæli upprunalegu brúarinnar hátt undir höfði í byrjun næsta árs og sendi byggðaráði Múlaþings erindi þess vegna fyrir skömmu. Hjá ráðinu var samþykkt að vinna málið áfram en aðspurður hvernig hann hugsi sér að fagna áfanganum segir hann ýmislegt koma til greina.
„Þetta var tekið fyrir hjá byggðaráði Múlaþings í gær og nú er menningarfulltrúi kominn með þetta á sitt borð. Þetta auðvitað á frumstigi og lítill tími til stefnu en mig langar til dæmis að setja upp einhvers konar jólaljós á brúna í desembermánuði. Svona gera eitthvað aðeins öðruvísi en venjulega til að minna vegfarendur á þennan merka áfanga. Það var hér vissulega afmælishátíð á hundrað ára afmælinu á sínum tíma en sú hátíð fór heldur lágt að mínu mati. Það er til mikill fjöldi gagna um byggingu upprunalegu brúarinnar, Lagarfljótið sjálft á merka sögu með siglingum og flugi, ferðalögum yfir frosið fljótið hugsanlega allt frá því fyrir árið 800 og þessu öllu er sjálfsagt að gera mikið úr og góð skil. Ég sé fyrir mér sýningu á sögu brúarinnar og fljótsins í Sláturhúsinu til dæmis og hugsanlega einhvers konar skiltasýningu við annan hvorn brúarendann sem ferðamönnum gæti fundist áhugavert. Ekki væri miður heldur að halda málþing af þessu tilefni því brúun fljótsins var stórt mál á sínum tíma og þetta var lengi lengsta brú landsins. Ýmislegt sem kemur til greina en mér finnst sjálfsagt að gera þessu hátt undir höfði.“
Lagarfljótsbrúin í öllu sínu veldi veturinn 2021. Hennar sögu og fljótsins alls þarf að gera góð skil á næstunni að mati viðmælanda. Mynd Flickr.com/Guðjón Lunt