Von á vandræðum í óvenju langvinnum og vondum sumarbyl
Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun sem gildir frá seinni parti mánudags til þriðjudagskvölds. Útlit er fyrir að færð á vegum spillist vegna hríðar og íbúar eru hvattir til að huga að lausamunum og búfénaði. Gular viðvaranir síðar í vikunni gætu enn orðið verri.„Þetta er mjög óvenjulegt veður fyrir þennan árstíma vegna vindstyrks, úrkomu og hversu lengi þetta stendur. Þetta gætu orðið þrír sólarhringar af appelsínugulum viðvörunum,“ segir Teitur Atlason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Í gær voru gefnar út gular viðvaranir fyrir svo að segja allt land sem síðar voru hækkaðar í appelsínugular fyrir stóran hluta landsins, þar á meðal Austurland að Glettingi og Austfirði.
Litirnir og þar með alvarleiki viðvarananna ræðst af tvennu. Annars vegar áhrifum veðurs, hins vegar líkum á spár gangi eftir. Þess vegna gætu gular viðvaranir sem taka við á þriðjudagskvöld enn orðið appelsínugular.
Mesta hvassviðrið á Austfjörðum
Það er djúp lægð austan við landið sem veldur óveðrinu. Appelsínugulu viðvaranirnar gilda frá því klukkan fimm á morgun, mánudag, fram að miðnætti á þriðjudag. Spáð er norðvestan 15-23 metrum á sekúndu með rigningu eða slyddu nærri sjávarmáli en snjókomu ofar. Líkur eru á að fjallvegir verði ófærir.
Í viðvöruninni segir að ferðalög verði varasöm, sérstaklega á ökutækjum sem taka á sig vind. Huga þurfi að því að koma búfénaði í skjól, lausamunir geti fokið og kuldi og vosbúð bíði útivistarfólks.
Teitur segir útlit fyrir að vindstyrkurinn í óveðrinu verði hvað mestur á Austfjörðum. Nákvæmlega hvar þekki heimafólk best en víða á svæðinu geta myndast sterkir strengir í slíkri átt. Á móti er í henni sjaldnast mikil úrkoma, nema þá helst nyrst á svæðinu, en það breyti því ekki að um sé að langan tíma með talsverðri uppsafnaðri úrkomu.
Líkur á fleiri viðvörunum síðar í vikunni
Veðurstofan gaf í dag líka út gula viðvörun fyrir allan miðvikudaginn. Þá er jafnvel búist við stormi með meðalvindhraða upp á 13-23 m/s. Þessu fylgir úrkoma sem fellur sem rigning eða slydda út við ströndina en snjókoma inn til landsins. Óvissa er um hversu langt niður í hlíðar fjalla snjólínan nær, en ekki er útilokað að hún nái alveg niður að sjávarmáli á einhverjum tímapunkti. „Það er viðbúin að hæð snjólínunnar verði rokkandi. Það veltur á ýmsu, dægursveiflu og misjöfnu hitastigi í veðrinu.“
Áfram eru í gildi viðvaranir um ferðalög, fyrir lausamuni, búfénað og útivist. Sem fyrr segir eru líkur á að fleiri appelsínugular viðvaranir verði gefnar út fyrir Austurland og Austfirði þegar nær dregur og vissan eykst um að spárnar gangi eftir. Viðbúið er að óveðrið gangi ekki niður fyrr en aðfaranótt föstudags.
„Það er full ástæða í dag til að gefa út appelsínugula viðvörun. Þetta er mjög óvenjulegt veður. Við erum komin inn í sumarið og þá færast viðmiðunargildin. Tjónnæmi samfélagsins hækkar. Garðhúsgögn eru komin út, tré hafa laufgast. Það er viðbúið að fjallvegir verði ófærir og alls konar vandræði skapist,“ segir Teitur.