Verður Austurstræti mótsvar við Laugaveginum?

illikambur gangaFrumkvöðlar í ferðaþjónustu kynntu um helgina hugmyndir sínar um gönguleið á milli Lóns og Fljótsdals sem þeir kalla „Austurstræti." Hugmyndin er að byggja upp gönguleið sem yrði sennilega sú lengsta sem í boði væri fyrir almenna ferðamenn hérlendis.

Ferðaþjónustuaðilarnir eru Steingrímur Karlsson, sem staðið hefur fyrir hestaferðum um austfirskar heiðar undanfarin ár og er að byggja upp Óbyggðasafn á Egilsstöðum í Fljótsdal og Gunnlaugur B. Ólafsson sem byggt hefur upp ferðaþjónustu á Stafafelli í Lóni. Þeir kynntu hugmyndir sínar fyrir áhugasömum í Reykjavík, á Egilsstöðum og Höfn á laugardag.

Hugmyndir þeirra gera ráð fyrir sjö daga gönguleið með gistingu í skálum á leiðinni. Ýmsa hagsmunaðila þarf að kalla að borðinu við vinnuna og var fundurinn á laugardag fyrsta skrefið í þeirri vegferð.

Steingrímur og Gunnlaugur segja leiðina „80% tilbúna." Skála vanti við Eyjabakka en sveitastjórn Fljótsdalshrepps hefur samþykkt skálasvæði þar á skipulagi. Að sunnanverðu vantar uppbygginu við upphafspunkt og göngubrýr yfir ár.

Merkja þarf leiðina eða setja upp GPS-punkta til að tryggja öryggi ferðafólks. Í þessu felast framkvæmdir upp á nokkrar milljónir króna.

Gunnlaugur sagði vaxandi eftirspurn eftir „slow tourism" þar sem ferðamenn leggja áherslu á að fara hægt yfir og taka eftir og njóta smáatriða í náttúrunni. Eftirspurn eftir gönguferðum hefur vaxið samhliða þessu en Gunnlaugur sagði ekki margar slíkar í boði hérlendis sem teljist í lengri kantinum.

Sú vinsælasta hérlendis er Laugavegurinn á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Þar er umhverfið farið að láta á sjá vegna mikillar umferðar ferðamanna.

Steingrímur segir þess vegna mikilvægt að undirbúa vinnuna við Austurstræti vel. „Við vitum ekki hvenær ásóknin austur stóreykst en við viljum ekki lenda í sömu vandræðum."

Gengið um Illakamb. Mynd: Gunnlaugur B. Ólafsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar