„Íslendingar eiga hjarta mitt": Náttúruelskandi Íslandsvinurinn Josef Neiderberger

josef3Svisslendingurinn Josef Neiderberger hefur dvalið á Íslandi undanfarin 30 sumur, en hann heillaðist af landi og þjóð eftir að hafa lesið bækurnar um Nonna og Manna. Þórður Júlíusson, bóndi á Skorrastað í Norðfirði, tók Josef tali.

Mörg okkar hafa undanfarin ár veitt athygli sérkennilegum Suzuki-jeppa, rauðum og svörtum – sem lagt hefur verið einhvers staðar úti í móa, við ár eða mel eða á tjaldstæði innan um stóra húsbíla og draghýsi. Eigandi þessa bíls er Íslandsvinurinn Josef Niederberger frá Sviss.

Sumarið 1998 veitti ég athygli litlu tjaldi við ármót Norðfjarðarár og Selár Í Norðfirði. Þarna stóð tjaldið dögum saman og ég var farinn að halda að það væri eitthvað að hjá tjaldbúanum. Þegar ég svo seinnipart nokkurn reið þarna um á H-Blesa mínum, „bankaði ég upp á" hjá tjaldbúanum.

Við mér blasti í tjaldskörinni, einkar vingjarnlegt og brosmilt, skeggjað andlit. Þetta var Josef. Hann bauð mér strax inn. Ég gerði einteyming úr taumnum og settist inn fyrir skörina en klárinn stóð úti í suddanum sem var þennan eftirminnilega sumardag. Þarna hófust kynni okkar Josefs og hafa þau varað síðan.

Jósef er undravert náttúrubarn. Hann dvelur dögum og jafnvel vikum saman á sama stað og nýtur þess smáa, jafnt því stóra í náttúrunni. Fuglasöngur, lækjarniður, blómaangan og sólaruppkoma – allt verður honum til ánægju. Hann teiknar gjarnan upplifun sína skærum litum, listaverk í anda gömlu náttúrumyndlistarmannanna.

Jósef hefur dvalið 30 sumur á Íslandi sem ferðamaður. Nú ætlar hann að dvelja í heimalandi sínu, Sviss, sumarið 2015. Ástæðu þess að hann kom hingað fyrst má rekja til bókarinnar Nonni og Manni, eftir Jón Sveinsson.

„Eftir lestur þeirrar bókar varð ég hugfanginn af landinu ykkar," segir Jósef. „Þegar ég fékk árs leyfi árið 1981 kom tækifærið til að heimsækja norðlægu eyjuna ykkar. Ég ætlaði bara að dvelja í þrjár vikur en það urðu þrír mánuðir. Ég var gjörsamlega heillaður af kröftugri en hreinni náttúru Íslands. Mér fannst hún svo ósnortin og gestrisnin ótæmandi."

Þegar Jósef er spurður um ferðamátann svarar hann: „Tuttugu og þrjú fyrstu sumrin ferðaðist ég um á gulu reiðhjóli eins og pósturinn notar. Ég gisti í litlu tjaldi og dvaldi alltaf þrjá mánuði hvert sumar. Fyrir sjö árum gaf Skúli Ragnarsson, bóndi á Ytra- Álandi, mér gamlan Suzuki-jeppa. Honum breytti ég í lítinn húsbíl á verkstæðinu hans. Brátt fór þessi minnsti húsbíll á Íslandi að vekja eftirtekt. Íslendingarnir vinkuðu mér og mér var boðið í íslenskan „kaffisopa" og jafnvel mat inni á heimilum þessarar gestrisnu þjóðar," segir Jósef.

Ég spyr hvort hann ætli virkilega að eyða sumardögunum 2015 í Sviss? „Ég ætla að reyna það, en veit ekki hvort þráin eftir Íslandi og Íslendingum ber mig ofurliði. Ég hef myndað mörg vinatengsl á Íslandi þessi 30 sumur og upplifað mikla gestrisni og fyrir það er ég afar þakklátur. Íslendingar eiga hjarta mitt og ég vil nota þetta tækifæri til að segja kærar þakkir. Þið eruð frábært fólk og búið í undrafögru landi."

josef1josef2

Ljósmyndir: 
Josef með Hans Jörg vini sínum. 
Josef og Theodóra Alfreðsdóttir á Skorrastað. Ljósm: Þórður Júlíusson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar